Arnar Þór Viðarsson, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, segist hafa orðið raddlaus við að öskra á leikmenn íslenska liðsins eftir frammistöðuna í fyrri hálfleik í 2-2 jafntefli Íslands og Norður-Makedóníu í gær.

Arnar byrjaði blaðamannafundinn á að tala um að Ísland hefði átt góðar fyrstu sekúndur en ekki verið í sambandi næstu 64. mínútur leiksins.

„Við byrjuðum leikinn vel fyrstu mínútuna en það slökknar á okkur næstu 64. mínúturnar. Ég er stoltur af því hvernig liðið brást við á síðustu 20-25 mínútunum en ég er ekki búinn að gleyma þessum 64. mínútum þar áður. Það var ekki nógu gott tempó hjá okkur, vorum ekki að finna svæði né að ná að spila boltanum fram völlinn.“

Þegar Arnar var spurður út í hálfleiksræðuna sagðist hann ekki muna nákvæmlega eftir því hvað hefði komið fram í ræðunni en að hann hafi misst röddina fljótlega.

„Ég hef aldrei verið jafn reiður og í hálfleiknum enda missti ég röddina. Ég ætlaði aldrei að verða svona reiður sem þjálfari en Eiður Smári tók við eftir þrjár mínútur þegar röddin var farin.“