Arnar Grétarsson, þjálfari knattspyrnuliðs KA tjáði sig í fyrsta skipti um fimm leikja bann sem hann fékk í kjölfar leiks KA og KR í Bestu deildinni. Arnar var í viðtali í hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni þar sem hann segist hafa farið yfir strikið.

Arnar var á dögunum dæmdur í fimm leikja bann af aganefnd Knattspyrnusambands Íslands eftir leik KA og KR í deildinni. Um verulega þunga refsingu er að ræða og því hefur verið varpað fram á samfélagsmiðlum að ástæða þessarar þungu refsingar einskorðist ekki einungis við það sem átti sér stað á leikdegi.

Hann var ansi ósáttur með dómgæsluna í leik KA og KR og fékk undir lok leiks að líta rauða spjaldið eftir að hafa kallað fjórða dómara leiksins, Svein Arnarson „fokking fávita." Arnar fór því sjálfkrafa í tveggja leikja bann því þetta er ekki í fyrsta skipti á tímabilinu sem honum er gefið rauða spjaldið.

Vefsíðan Fótbolti.net greindi frá því að Arnar og Sveinn, sem eru báðir búsettir á Akureyri, hefðu mæst daginn eftir leik og „Arnari hafi ekki verið runnin reiðin þá"

Arnar sagði frá sinni hlið í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin. „Það er búið að gusta vel um okkur og þá sérstaklega um mig. Það verður að segjast alveg eins og er að ég á allan þátt í því. Eftir rauða spjaldið hagaði ég mér á alveg gjörsamlega óásættanlegan máta og sprakk.“

Hann segist sjá alveg gríðarlega eftir því „ og nota tækifærið hér og nú og bið þessa einstaklinga innilega afsökunar vegna þess að það er ekkert sem afsakar það, sama hvort dómarar eru mjög slakir eða ekki að þú missir þig svona."

Arnar segist hafa misst hausinn. „Ég hagaði mér gríðarlega illa og kom sjálfum mér, leikmönnum mínum og félaginu í slæma stöðu. Ég sé fyrst og fremst gríðarlega eftir því.“

Rekinn út af skrifstofunni

Arnar tjáði sig svo um það sem átti sér stað daginn eftir leik KA og KR þegar hann var mættur til vinnu í KA-heimilinu. Þar mætti hann fjórða dómara leiksins, Sveinn Arnarsson.

„Ég labbaði framhjá skrifstofu sem er við hliðina á minni og þar sé ég fjórða dómara vera að rölta inn í herbergi þar sem handboltaþjálfararnir eru. Þar er hann bara með kaffibolla og enginn annar inni. Ég var ekki enn búinn að jafna mig á þessu nokkrum klukkutímum seinna."

Arnar segist hafa vísað Sveini út. „Ég held ég hafi ekki notað einhver ljót orð en auðvitað var mér enn heitt í hamsi.“ Hann er á því að Sveinn hefði átt að lesa betur í aðstæður þarna en þennan dag var hann að koma með barn sitt á æfingu hjá KA.

,,Ég er hundrað prósent viss á því að ef hann hefði mætt tveimur dögum seinna hefði ég beðist afsökunar á mínu framferði og rætt atvikið.“

Arnar segist ekki hafa hitt á Svein síðan þá. „En í sjálfu sér á ég ekkert vantalað við hann annað en að biðja hann afsökunar. Vonandi hlustar hann á þetta en ef ég sé hann þá bið ég hann afsökunar á mínu framferði vegna þess að alveg sama hvernig hann stóð sig eða ég lít á það hvernig hann stóð sig, þá réttlætir það ekki mína framkomu. Ég vil undirstrika það alveg skýrt. Ég fór yfir strikið og reyni ekki að verja það."