Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag fyrir leik Íslands gegn Suður-Kóreu á morgun. Arnar býst við allt öðrum leik á morgun heldur en á dögunum gegn Úganda.

,,Við eigum von á allt öðrum leik. Hópurinn sem Suður-Kórea er með hérna er svona 80-85% af þeirra sterkustu leikmönnum. Þetta er sterkur hópur hjá þeim og lið sem er búið að spila lengi saman. Þjálfarinn þeirra tók við fyrir þremur árum og þeir hafa verið að breyta leikstíl sínum frá því að vera lið skyndisókna yfir í lið sem heldur boltanum mikið," sagði Arnar Þór á blaðamannafundi í dag.

Hann býst við því að íslenska liðið muni ekki stjórna leiknum á morgun, að því leytinu til verði leikurinnn frábrugðinn leiknum gegn Úganda sem endaði með jafntefli.

Hefur fengið mörg svör

Að sögn Arnars hefur hann fengið mörg svör hingað til í verkefninu. Landliðshópurinn er að þessu sinni að mestu leyti skipaður leikmönnum sem spila á Norðurlöndunum. Arnar segist einna helst vilja sjá hvaða leikmenn séu tilbúnir í að taka skrefið með A-landsliðinu.

,,Það eru þessi svör sem ég vil fá frá leikmönnum, hverjir koma inn og sýna okkur að þeir eru klárir í A-landsliðið. Ég var mjög ánægður með mörg svörin sem komu á móti Úganda en svo er maður líka bara að kynnast þeim leikmönnum sem ég hef ekki unnið með áður."

Hann segist vera mjög ánægður með karakterinn hjá þessum leikmönnum. ,,Það er erfitt að segja til um það núna hverjir verða strax með okkur aftur í mars en stærsta verkefnið okkar var að tengja þetta við þá leikmenn sem eru enn gjaldgengir í u-21 landsliðið til þess að sjá hvort þeir leikmenn séu klárir í næsta skref."

Áhersla á að koma í veg fyrir litlu mistökin

Aðspurður að því hverjar áherslurnar verða í leik íslenska liðsins á morgun segir Arnar að liðið vilji loka á litlu mistökin í leik sínum og leggja áherslu á ákveðnar varnarfærslu. ,,Hvenær og hvar við viljum setja pressu á andstæðinginn. Suður Kórea spilar 4-3-3 leikkerfi líkt og við viljum gera. Kerfið þeirra er oft á tíðum spegilmynd af okkar kerfi. Það er oft gott að fá leik á móti góðu og hröðu liði til að æfa þessar varnartilfærslur."

Fleiri Covid-19 smit ekki greinst

Að sögn Arnars hafa ekki fleiri Covid-19 smit greinst í herbúðum Íslands eftir að Brynjólfur Darri Willumsson, leikmaður liðsins, greindist jákvæður á dögunum.

,,Við vorum allir í covid testi bæði fyrir leikinn á morgun og ferðalagið heim. Vonum að það sé allt neikvætt en Brynjólfur er enn í einangrun," sem sagðist ekki vera kunnugur sóttvarnarreglum í Tyrklandi og því hvort Brynjólfur gæti ferðast heim á sama tíma og restin af landsliðinu.