Íslenska karlalandsliðið náði að bjarga jafntefli gegn Albaníu í Þjóðadeildinni en þetta var tíunda jafntefli liðsins undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.

Tæplega tíu prósent af jafnteflum karlalandsliðsins frá upphafi hafa komið undir stjórn Arnars og hefur enginn annar þjálfari liðsins stýrt liðinu í jafn mörgum jafnteflisleikjum.

Strákarnir okkar urðu fyrir áfalli á upphafsmínútum leiksins þegar Aroni Einari Gunnarssyni var vikið af velli. Þrátt fyrir að hafa leikið manni frá 8. mínútu náði Ísland að jafna metin í uppbótartíma leiksins með marki frá Mikaeli Neville Andersen.

Þetta var fjórða jafntefli liðsins í fjórum leikjum í Þjóðadeildinni og alls tíunda jafnteflið undir stjórn Arnars. Með því tekur Arnar fram úr Ólafi Jóhannessyni (9) yfir flest jafntefli hjá þjálfara karlalandsliðsins.

Þá ber Arnar ábyrgð á 9,8 prósent af þeim 102 jafnteflum sem karlalandsliðið hefur leikið í frá fyrsta landsleik karlaliðsins sumarið 1946.