Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur var að vonum ánægður með 6-1 sigur sinna manna á Levadia Tallinn í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Arnar segir Víkinga hafa einfaldlega verið sterkari í fótbolta og vill meina að fyrri hálfleikur leiksins hafi verið einn sá heilsteyptasti hjá Víkingum undir hans stjórn.

Víkingar lentu 1-0 undir snemma leiks en tóku síðan öll völd á vellinum og sigldu heim 6-1 sigri og mæta Inter Club d'Escada í hreinum úrslitaleik um laust sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar á föstudaginn.

,,Fyrst og fremst bara geggjaður fyrri hálfleikur sem skóp þennan sigur," sagði Arnar í viðtali við Fréttablaðið eftir leik í kvöld aðspurður um fyrstu tilfinningar eftir leik. ,,Það var þvílíkt hátt orkustig í liðinu,við pressuðum þá vel og leyfðum þeim aldrei að komast inn í leikinn. Það var vissulega högg að fá þetta mark á sig í byrjun leiks, það hefði slegið margan út af laginu en við héldum bara áfram, héldum leikplaninu. Leikmenn fundu það síðan þegar leið á leikinn að við vorum sterkari í fótbolta og seinni hálfleikur snerist bara um að halda haus.

Víkingar sýndu mikinn karakter eftir að hafa lent marki undir strax á fjórðu mínútu en Arnar er virkilega sáttur með það hvernig leikmenn brugðust við eftir að hafa fengið á sig mark.

,,Ég gæti ekki verið ánægðari með viðbrögð leikmannanna eftir þetta högg. Ég held að þetta sé heilsteyptasti fyrri hálfeikurinn, frammistöðulega séð, sem liðið hefur sýnt undir minni stjórn. Við vorum að spila nýtt kerfi sem við höfum ekki verið að spila í sumar og það hvernig leikmenn voru að verjast með og án bolta sem og hvernig við vorum að nýta boltann þegar að við fengum hann var frábært.

Orkustigið var líka hátt. Þetta sýnir bara hvernig framtíðin í íslenskum fótbolta þarf að vera. Breiðablik sýndi í fyrra að það er hægt að mæta í þessa Evrópuleiki, vera með hátt orkustig og ekki ligga til baka í lágvörn og leiðindum. Þetta er leiðin sem við eigum að fara."

Hann telur að leikmenn Levadia Tallinn hafi vanmetið sitt lið. ,,Þeir voru með smá töffaraskap þarna í fyrri hálfleik, komust í 1-0 snemma og héldu kannski að þetta yrði léttari leikur en mér fannst við bara vera með þetta. Stundum fær maður bara tilfinningu fyrir því í upphitun hvernig stemmningin er í hópnum. Þetta er ekki lélegt lið, ég vil bara meina að við höfum verið mjög öflugir í kvöld."

Víkingar munu mæta talsvert lakara liði á föstudaginn, Inter Club d'Escada frá Andorra. Arnar telur að það verði ekkert mál að mótivera sína leikmenn fyrir þann leik.

,,Ég held að það verði ekkert mál. Vonandi förum við ekki inn í þann leik með eitthvað vanmat. Það er bara mitt hlutverk að negla því inn í hausinn á leikmönnunum að þessu verkefni er ekki lokið," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur í samtali við Fréttablaðið í kvöld.