Arnar Grétarsson sem tók við þjálfun karlaliðs KA í knattspyrnu í júlí síðstliðnum hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu KA.

Undir stjórn Arnars hefur KA-liðið gert níu jafntefli Íslandsmótinu, haft betur í tveimur deildarleikjum og beðið ósigur í einum leik í deildinni sem var á móti Val, toppliði deildarinnar.

KA siglir lygnan sjó í deildinni en liðið situr í sjöunda sæti með 21 stig og er 13 stigum frá fallsvæði deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir og 10 stigum frá sæti sem veitir þátttökurétt í undankeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð.

„Ég er bæði ánægður og stolt­ur með þessa niður­stöðu. Arn­ar er afar metnaðarfull­ur og ein­stak­lega fag­leg­ur í allri sinni vinnu og viðhorfi til fé­lags­ins. Það rík­ir mik­il ánægja með hans störf meðal leik­manna okk­ar sem og allra KA manna.

Við vænt­um þess að Arn­ar haldi áfram að móta liðið sem og ein­staka leik­menn okk­ar en inn­an fé­lags­ins er, auk reynslu­bolta okk­ar, fjöld­inn all­ur af efni­leg­um metnaðarfull­um strákum sem bíða þess að bera uppi framtíðar lið okk­ar KA manna," seg­ir Hjörv­ar Mar­ons­son formaður knatt­spyrnu­deild­ar KA um þessi tíðindi í samtali við heimasíðu KA.

Að öllu þessu sögðu tel ég að sam­komu­lag okk­ar við Arn­ar Grét­ars­son séu frá­bær­ar frétt­ir til stuðnings­manna KA og sýni best metnað fé­lags­ins í því að ná sí­fellt meiri ár­angri. Þessi metnaður er af­skap­lega rík­ur í fé­lag­inu öllu og því gam­an að vera KA maður,“ segir Hjörvar enn fremur.