Íslenska landsliðið skipað piltum undir 21 ára aldri sýndi allar sínar bestu hliðar í 6-1 sigri á Armeníu í undankeppni EM í dag.

Ísland er því með fullt hús stiga og markatöluna 9-1 eftir fyrstu tvo leikina gegn Andorra og Armeníu.

Íslenska liðið leiddi 3-0 í hálfleik eftir mörk frá Willumi Þór Willumssyni, Jóni Degi Þorsteinssyni og Ísaki Óla Ólafssyni áður en Armenar minnkuðu muninn í upphafi seinni hálfleiks.

Rautt spjald á Armeníu um miðbik seinni hálfleiks gerði út um vonir gestanna og bætti íslenska liðið við þremur mörkum áður en leikurinn var flautaður af.

Varamennirnir Brynjólfur Darri Willumsson og Jónatan Ingi Jónsson skoruðu sitt hvort markið líkt og miðvörðurinn Ari Leifsson.