Ari Freyr Skúlason sem lék sem vinstri vængbakvörður hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu segir íslenska liðið geta verið stolt af spilamennsku sinni gegn Belgíu á Laugardalsvellinum í kvöld þrátt fyrir 2-1 tap. Einkum og sér í lagi í ljósi fjarveru lykilleikmanna og sérstakra aðstæðna síðasta sólarhringinn.

„Mér fannst persónulega mjög gaman að koma aftur inn í liðið og spila þennan leik. Við vorum að spila við frábært lið Belga án lykilleikmanna og þá hjálpuðu þær aðstæður sem sköpuðust í gær ekki við undirbúninginn. Við náðum hins vegar að halda einbeitingu og sýna góða frammistöðu," sagði Ari Freyr á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Ég var ekkert hræddur fyrir þennan leik en við vissum alveg að verkefnið yrði erfitt. Ég hafði mestar áhyggjur af þeim leikmönnum sem voru að spila þriðja leikinn á skömmum tíma á þungum velli. Við eigum mjög mikilvægan leik gegn Ungverjum fyrir höndum og ég vildi alls ekki missa menn í meiðsli fyrir þann leik," sagði bakvörðurinn en Ísland mætir Ungverjalandi í umspili um laust sæti á EM 2021 12. nóvember næstkomandi.

Ari var svo spurður út í spilamennsku kollega síns í hægri bakverðinum, Birkis Más Sævarssonar, sem skoraði mark íslenska liðsins í leiknum. „Það er frábært að sjá Birki Má koma svona sterkan til baka og spila með honum aftur. Það er líka bara gott að fá Birki Má aftur inn í hópinn þó að hann tali ekki mikið," sagði hann sposkur um fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Val.