Myndband af Samuel Eto'o, fyrrum framherja og forseta knattspyrnusambands Kamerún, ráðast á mann í Doha í Katar í gær hefur farið eins og eldur um sinu um internetið. Athæfið er til umræðu í HM-hlaðvarpi íþróttadeildar Torgs (Fréttablaðsins og DV) í dag.

Eto'o, sem þekktastur er fyrir tíma sinn hjá Barcelona og Inter, var á heimleið eftir leik Brasilíu og Suður-Kóreu á Heimsmeistaramótinu í gærkvöldi þegar fólk vildi fá mynd með honum.

Fyrst um sinn tók Eto'o vel í slíkt en þegar hann var að fara af vettvangi ákvað hann að snúa við og hjóla í mann með myndavél.

Allt virtist vera að ganga niður þegar Eto'o rauk af stað og sparkaði í andlit mannsins sem virtist sleppa nokkuð vel frá árásinni.

„Ég held að hann sé á skrýtnum stað. Það var eins og hann væri með sólsting þegar hann spáði fyrir úrslitum á mótinu,“ segir Helgi Fannar Sigurðsson, einn af meðlimum hlaðvarpsins.

Eto'o spáði einmitt Kamerún sigri á HM eftir úrslitaleik við Marokkó.

Aron Guðmundsson veltir því upp hvort ekki væri hægt að leyfa Eto'o að reyna fyrir sér í bardagaíþróttum.

„Maður sér þetta í UFC svo það er spurning hvort það væri ekki hægt að gefa honum samning.“

Umræðuna má hlusta á hér að neðan.