Anton Ari Einarsson markvörður í knattspyrnu sem verið hefur á mála hjá Val síðan árið 2014 mun halda í herbúðir Breiðabliks eftir að keppnistímabilinu sem nú er í gangi lýkur.

Fyrr í sumar hélt Fréttablaðið því fram að þessi uppaldi Aftureldingarmaður myndi ganga til liðs við Breiðalik í félagaskiptaglugganum í júlí en svo fór ekki.

Nú hefur hins vegar Anton Ari sem varð Íslandsmeistari með Val árin 2017 og 2018 en vermt hefur varamannabekk Vals að mestu leyti í sumar ákveðið að færa sig um set.

Hann hefur alls leikið 77 deildarleiki fyrir Val en þá hefur Anton Ari varið mark íslenska A-landsliðsins tvisvar sinnum.

Á þessari leiktíð hefur Anton Ari leikið þrjá deildarleiki og einn bikarleik en hann missti sæti sitt til Hannesar Þórs Halldórssonar.

Hjá Breiðabliki mun Anton Ari hins vegar berjast um sætið í markinu við Gunnleif Vigni Gunnleifsson sem framlengdi nýverið samning sinn um eitt ár.