Anton Sveinn McKee keppti í undanrásum í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Anton Sveinn synti á tímanum 2:11,64 sekúndum en hann á best 2:10,21 sekúndur og var Anton því 1,43 sekúndum frá Íslandsmeti hans í greininni. Sá tími skilaði Antoni Sveini í annað sæti í sínum riðli.

Hann var hins vegar í 24. sæti í undanrásunum en 16 bestu tímarnir tryggja sæti í undanúrslitasundinu. Þar af leiðandi náði Anton Sveinn ekki að tryggja sér farseðilinn í undanúrslitin.

Anton Sveinn, sem er að keppa í þriðja sinn á Ólympíuleikum, hefði þurft að synda á 2:09,95 sekúndum til þess að komast áfram í undanúrslitasundið.