„Ég fór inn í þetta mót eftir að hafa æft við aðstæður sem ég hef aldrei verið í áður. Bæði þá er ég í fyrsta skipti eingöngu að einbeita mér að sundinu og þá flutti ég til Virginia Tech í uppafi ársins þar sem ég er að æfa við topp aðstæður og með mörgu af fremsta sundfólki heims. Þá er ég kominn með nýjan þjálfara sem heitir Sergio Lopez sem er mjög fær, sérstaklega í bringusundi," segir Anton Sveinn McKee í samtali við Fréttablaðið en hann vann gull- og bronsverðlanu á móti í Pro Swim-mótaröðinni um helgina.

„Þar sem ég hafði engar forsendur til þess að meta á hvaða tíma væri raunhæft að stefna á í þessu móti renndi ég nokkuð blint í sjóinn. Þeir tímar sem ég synti á eru nokkrum sekúndum en ég var vanur að synda á þessum tímapunkti á keppnistímabilinu. Ég fann það alveg að ég er í góðu andlegu og líkamlegu formi fyrir mótið og þegar mótið hófst. Þrátt fyrir það koma þessir tímar mér skemmtilega á óvart;" segir Anton Sveinn um stöðu mála hjá sér.

„Það sem er lykillinn að því að þessari bætingu er bæði það að ég er að æfa meira og betur. Ég næ líka að huga betur að hverri æfingu og er með markvissara plan um það hvað ég ætla að vinna í á hverri æfingu. Mér finnst ég hafa náð betri tökum á mörgum tæknulegum atriðum bringusundsins. Þá næ ég auk þess að hvíla mig betur á milli æfinga og ná betri endurheimt fyrir æfingar og keppni," segir hann um ástæðu þess að hann er í jafn góðu formi og raun ber vitni.

„Ég er æfa við toppaðstæður hér í Virginiu og með sundfólki í allra fremstu röð. Umhverfið hérna hvetur mann áfram og við náum að bæta hvort annað á æfingum. Mér líður mjög vel hérna og er mjög ánægður með að hafa flutt hingað og ákveðið að leggja allt annað en sundið til hliðar um stundarsakir," segir Anton um umgjörðina þar sem hann æfir.

„Þessi frammistaða mín gefur góð fyrirheit fyrir Ólympíuleikana og ég gæti ekki verið á betri stað í undirbúningi mínum fyrir leikana. Næsta verkefni hjá mér er Evrópumótið í 25 metra laug í Glasgow í byrjun desember og ég er mjög spenntur fyrir því móti. Það er góð tilfinning að finna fyrir því að vera í sínu besta andlega og líkamlega formi," segir þessi öflugi sundmaður um framhaldið.

„Eftir Evrópumótið tekur við törn fram að Ólympíuleikum þar sem ég fer reglulega í mót og tek mér enga langa hvíld á milli móta. Vonandi tekst mér að toppa á réttum tíma og byggja á þeim góða grunni sem ég náð upp með stífum æfingum og góðu utanumhaldi um líkama og sál á mill æfinga," segir hann um næstu verkfefni hjá sér.