Anton Sveinn McKee, sundkappi hefur ákveðið að draga sig úr keppni í 100 metra bringusundi á komandi Meistaramóti Evrópu. Anton gerir það eftir að hafa fengið matareitrun í Barcelona, nokkrum dögum fyrir mót. Kærasta Antons, þrírþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir hefur einnig dregið sig úr keppni á mótinu vegna matareitrunar.

Þrátt fyrir að Anton hafi dregið sig úr keppni í 100 metra bringusundi mun hann samt keppa í 200 metra bringusundi. Í viðtali sem var tekið af starfsmanni Sundsambands Íslands segist Anton gera þetta til þess að geta einbeitt sér 100% að 200 metra sundinu.

Örlagarík máltíð í Barcelona

Á dögunum greindi þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir frá því að hún myndi ekki taka þátt á Meistaramóti Evrópu vegna matareitrunar sem hún fékk eftir að hafa borðað á veitingastað í Barcelona með kærasta sínum, Antoni Sveini McKee.

Guð­laug sagði frá því í færslu á samfélagsmiðlum hvernig hún hafi fengið mjög slæma matar­eitrun .,,Í síðustu viku var ég lögð með­vitundar­laus inn á spítala með 41 stiga hita og niður­gang (með blóði). Eftir að við náðum hitanum niður var ég send í rann­sóknir, og nú hefur verið stað­fest að ég fékk mjög slæma matar­eitrun."

Hún segist hafa legið inni á spítala í þrjá daga. ,,Síðan að ég kom heim hef ég verið að ná mér en það hefur ekki verið nóg til að koma til baka í fullar æfingar. Vegna þessa og fyrir mína eigin heilsu er ég til­neydd til þess að draga mig úr keppni á Evrópu­meistara­mótinu í Munich."