Anton Sveinn McKee lenti í sjötta sæti í úrslitasundinu í 100 metra bringusundi á EM í 25 metra laug sem fer fram í Skotlandi þessa dagana.

Þetta var síðasta keppni Antons á mótinu og getur hann gengið stoltur frá borði eftir magnaða viku.

Anton lenti í sjötta sæti í dag eftir að hafa verið með næstbesta tímann í undanrásunum í gær.

Íslenski sundkappinn gerði enn betur í dag þegar hann kom í mark á 56,89 og varð með því fyrsti Íslendingurinn undir 57 sekúndur.

Þetta var sjöunda Íslandsmet Antons sem bætti met í hvert sinn sem hann keppti í Glasgow þessa vikuna.