Heimildir Fréttablaðsins herma að knattspyrnumarkvörðurinn Anton Ari Einarsson muni færa sig um set frá Val til Breiðablik þegar opnað verður fyrir félagaskipti á nýjan leik 1. júlí næstkomandi.

Anton Ari hefur verið á mála hjá Hlíðarendaliðinu frá því árið 2014 en hann fékk fast sæti í byrjunarliði liðsins sumarið 2016 og varði mark liðsins síðustu þrjú keppnistímabil þar sem liðið varð Íslandsmeistari tvisvar sinnum og bikarmeistari einu sinni.

Hann lék einnig einn leik í bikarkepppninni þegar Valur varð bikarmeistari árið 2015.

Anton fékk svo samkeppni frá Hannesi Þór Halldórssyni landsliðsmarkverði fyrir þessa leiktið og hefur einungis leikið einn deildarleik það sem af er sumar.

Hjá Breiðabliki mun hann berjast um markmannsstöðuna við Gunnleif Vigni Gunnleifsson en Blikar eru á toppi Pepsi Max-deildarinnar með 16 stig líkt og ÍA eftir sjö umferðir.