Annie birti í gær hjartnæma færslu á Instagram sem var tileinkuð dóttur hennar. Í færslunni segist Annie vera á besta mögulega stað sem hún gæti hugsað sér.

Annie og unnusti hennar, Frederik Aegidius, eignuðust sitt fyrsta barn í ágúst á síðasta ári, hana Freyju. Við tók langt hlé Anniear frá þátttöku í Crossfit mótum og mat margra var að hún væri komin af sínu besta skeiði.

Annie hefur hins vegar sýnt það og sannað að nýtilkomið foreldrahlutverk hennar markaði ekki endalokin á Crossfit ferlinum heldur upphaf á nýjum kafla.

,,Það að eignast barn setur hlutina í annað samhengi. Það hafa margir sagt mér að á þeim tímapunkti byrjar nýtt líf, það verði algjör viðsnúningur á lífi mans og að maður hætti að setja sjálfan sig í fyrsta sæti. Freyja hefur gjörbreytt lífi mínu, núna hef ég eina manneskju í viðbót hjá mér til þess að deila þessu frábæra ferðalagi með."

Hún sé nú með betra bakland en nokkru sinni áður. ,,Ef ég stæði ein í þessu væri ég löngu hætt. Núna er liðið mitt stærra en nokkru sinni áður og ég gæti ekki ímyndað mér að vera á öðrum stað en akkúrat þessum núna," skrifaði Annie Mist í hjartnæmri færslu á Instagram.