Annie Mist Þórisdóttir er í öðru sæti eftir fyrsta keppnisdag á heimsleikunum í CrossFit og stendur best Íslendinganna.

Fyrstu tvær þrautirnar fóru fram í gær og fór niðurskurður fram í lok dagsins og náðu allir sex Íslendingarnir niðurskurði.

Annie Mist náði fimmta sæti í seinni þraut gærdagsins og fékk fyrir það 92 stig eftir að hafa lent í sjötta sæti í fyrstu þrautinni. Alls er Annie með 182 stig, tólf stigum á eftir Karissa Pearce.

Tia-Clair Toomey, meistari undanfarinna tveggja ára, náði sér ekki á strik í annarri þrautinni þar sem hún lenti í tólfta sæti eftir að hafa unnið fyrstu þrautina.

Katrín Tanja Davíðsdóttir náði tíunda sæti í seinni þraut gærdagsins eftir að hafa lent í 21. sæti í fyrstu þrautinni og er Katrín Tanja í 12. sæti með 142 stig eftir tvær þrautir.

Þuríður Erla Helgadóttir er í 16. sæti, Sara Sigmundsdóttir í 26. sæti og Oddrún Eik Gylfadóttir í 32. sæti eftir að hafa ekki náð að klára aðra þrautina í gær

Í karlaflokki tókst Björgvini Karli Guðmundssyni ekki að fylgja eftir góðum árangri í fyrstu þrautinni og er í 12. sæti eftir að hafa lent í 30. sæti í annarri þraut gærdagsins.