Dómarinn sem dæmdi leik Argentínu og Englands á HM 1986, einum frægasta leik knattspyrnusögunnar, er búinn að setja boltann úr leiknum til sölu. Búist er við því að boltinn gæti selst á um hálfan milljarð íslenskra króna.

Á dögunum seldist treyja Maradona úr umræddum leik á rúman milljarð íslenskra króna og er dómari leiksins, Ali Bin Nasser, búinn að ákveða að selja boltann sem hann geymdi sem minjagrip í leikslok.

Í leiknum skoraði Maradona tvö af þekktustu mörkum knattspyrnusögunnar, annað með hendinni sem er iðulega titlað Hendi Guðs (e. hand of god) og hitt með því að leika á stærstan hluta liðs Englands í aðdragandanum, iðulega kallað mark aldarinnar (e. goal of the century).

Mörkin tvö reyndust skera úr um úrslit leiksins þann daginn í 2-1 sigri Argentínu og urðu Argentínumenn Heimsmeistarar tveimur leikjum síðar.

„Þessi bolti er hluti af knattspyrnusögunni og það er réttur tímapunktur að deila honum með heiminum. Í fyrra marki Maradona sá ég atvikið ekki nægilega vel,“ sagði Bin Nasser.

Árið 2015 hittust Maradona og Bin Nasser og afhenti Maradona dómaranum áritaða treyju.