Stelpurnar okkar í íslenska kvennalandsliðinu nældu í annað stig mótsins gegn Ítölum í dag í 1-1 jafntefli. Ísland er því enn í möguleika á að komast áfram í lokaumferðinni en er ekki lengur með örlögin í okkar höndum.

Frakkar bíða íslenska liðinu í lokaumferðinni sem geta komist áfram með sigri á Belgum síðar í dag og þurfa Stelpurnar okkar að treysta á franskan sigur.

Ísland þarf því líklegast að vinna Frakka til þess að eiga möguleika á sæti í átta liða úrslitunum.

Þorsteinn Halldórsson gerði eina breytingu á byrjunarliði Íslands. Eyjamærin Elísa Viðarsdóttir kom inn í stað Sifjar Atladóttur í stöðu hægri bakvarðar.

Íslenska liðið fékk sannkallaða draumabyrjun. Á þriðju mínútu leiksins kom Karólína Lea Vilhjálmsdóttir Íslandi yfir með skoti af stuttu færi.

Ítalir áttu í stökustu vandræðum með að hreinsa eftir langt innkast frá Sveindísi Jane og datt boltinn fyrir Karólínu sem skoraði áttunda mark sitt fyrir landsliðið og það fyrsta á stórmóti.

Berglind fékk úr litlu að moða í sóknarleiknum í dag.
Fréttablaðið/ernir

Ísland fékk annað færi stuttu síðar þegar boltinn barst á Söru Björk Gunnarsdóttur eftir fast leikatriði en skotið fór yfir. Andstæðingar okkar áttu í stökustu vandræðum með föstu leikatriði Íslands framan af leiks.

Þegar líða tók á hálfleikinn fóru Ítalir að ná betri stjórn á leiknum. Íslenska liðið komst lítt áleiðis í því að byggja upp sóknir og Ítalir iðulega fljótir að vinna boltann aftur.

Þrátt fyrir það voru Ítalir ekki að skapa sér mikið. Flestar tilraunir þeirra voru við vítateigsbogann og var Sandra Sigurðardóttir vel á verði í marki Íslands.

Ísland leiddi í hálfleik en greinilegt var að þjálfari Ítala var ekki sáttur og gerði tvær sóknarsinnaðar breytingar, eina í hálfleik og eina í upphafi seinni hálfleiks.

Sandra var öflug í marki Íslands í dag.
Fréttablaðið/ernir

Upphaf seinni hálfleiks var keimlíkt lokum fyrri hálfleiks. Ítalir voru með boltann en sköpuðu ekki mikið og þegar þær komust í átt að marki Íslands stóð Sandra vakt sína með prýði og hirti alla bolta.

Varamaðurinn Alexandra Jóhannsdóttir fékk sannkallað dauðafæri til að koma Íslandi 2-0 yfir skömmu eftir að hún kom inn á. Skalli Glódísar Perlu rataði á Alexöndru á fjærstönginni en hún renndi boltanum hárfínt framhjá.

Það átti eftir að reynast dýrkeypt en nokkrum sekúndum síðar voru Ítalir búnir að skora. Varamaðurinn Barbara Bonansea komst upp kantinn og fann Valentina Bergamaschi sem skoraði af stuttu færi.

Svo sannarlega grátleg staða fyrir Stelpurnar okkar sem voru hársbreidd frá því að ná betra taki á leiknum en voru þess í stað skyndilega í jöfnum leik.

Sara var að leika sinn 140. leik fyrir Íslands hönd í dag.
Fréttablaðið/ernir

Ítalir voru líklegri til að finna annað mark á næstu mínútum en á lokamínútum leiksins fékk Karólína færi til að skora sigurmarkið en skot hennar af stuttu færi fór framhá.

Skömmu síðar var Sveindís Jane óheppin með móttöku þegar hún var við það að komast í færi en það var greinilegt að íslenska liðið vissi mikilvægi þess að sækja sigurmark.