Franska knattspyrnufélagið Le Havre AC hefur fest kaup á landsliðsmiðverðinum Önnu Björk Kristjánsdóttur sem gengur til liðs við félagið frá Selfossi. Það er sunnlenska.is sem greinir frá þessu.

Anna Björk mun hitta fyrir samherja sinn hjá íslenska landsliðinu, Berglindi Björgu Þorvaldsóttur, hjá Le Havre AC en Berglind Björg gekk nýverið til liðs við félagið frá Breiðabliki. Le Havre AC sem er nýliði í frönsku efstu deildinni á yfirstandandi keppnistímabili hefur þrjú stig eftir fyrstu tvo leiki sína í deildinni en næsti deildarleikur liðsins er á móti Paris FC laugardaginn 26. september.

„Ég er virkilega spennt fyrir að komast í svona sterka deild og tel það algjör forréttindi að fá að keppa á móti nokkrum af bestu liðum og leikmönnum í heimi. Þetta er spennandi áskorun og það hefur alltaf verið draumur minn að spila og búa í Frakklandi,“ segir Anna Björk í samtali við sunnlenska.is.

„Mér líst vel á þetta og hef heyrt góða hluti frá Berglindi Björgu og þeim sem eru í kringum liðið. Það er ekki langt síðan kvenna liðið var stofnað en hefur tekið miklum framförum á stuttum tíma og ég hlakka til að gera mitt besta til að hjálpa liðinu að ná sem besta árangri.

Mig langar líka til þess að þakka Selfyssingum fyrir stuttan en gefandi tíma og það er virkilega erfitt að kveðja á þessum tímapunkti. En ég er þakklát Selfyssingum fyrir að standa við bakið á mér og hjálpa mér að grípa þetta tækifæri,“ segir Anna Björk enn fremur.

Anna Björk kom til Selfoss frá PSV Eindhoven í Hollandi síðastliðið vor og lék fimmtán leiki með Selfyssingum í deild og bikar. Hún er annar leikmaðurinn sem yfirgefur herbúðir Selfoss í þessari viku en Hólmfríður Magnúsdóttir söðlaði um til Avaldsnes sem spilar í norsku úrvalsdeildinni.