Aníta Hin­riks­dóttir, sem lengi vel hefur verið einn fremsti frjáls­í­þrótta­maður landsins í um ára­tug þrátt fyrir að vera einungis 25 ára að aldri, er gengin í raðir FH.

Hún hefur keppt á Ólympíu­leikum og Heims­meistara- og Evrópu­meistara­mótum og verið til­nefnd sem í­þrótta­maður ársins. Auk þess á hún Ís­lands­met í 800 og 1.500 metra hlaupi og „stefnir ó­trauð á frekari af­rek“ að því er segir í til­kynningu frá FH.

Þar segir enn fremur að Irma Gunnars­dóttir, stökkvari ársins 2021, Gunnar Eyjólfs­son, einn öflugasti tug­þrautar­maður Ís­lands, Íris Anna Skúla­dóttir, einn öflugasti milli­vega- og lang­hlaupari landsins og hinn bráð­efni­legi milli­vega­hlaupari Hlynur Ólafs­son hafi gengið til liðs við Hafnar­fjarðar­liðið.

Hollenski sprett­hlauparinn Naomi Sed­n­ey hefur hafið æfingar með FH en hún hefur keppt á nokkrum stór­mótum með boð­hlaups­sveit Hollands, síðast á Ólympíu­leikunum í Tókýó. Hún stefnir á að keppa á nokkrum mótum innan­húss hér, til að mynda Reykja­vík International Games í næsta mánuði.

Naomi Sed­n­ey kemur í mark í boð­hlaupi á Muller British Grand Prix í fyrra þar sem hollenska liðið bar sigur úr býtum.
Fréttablaðið/Getty

„Það er okkur sönn á­nægja að nokkrir af fremstu frjáls­í­þrótta­mönnum landsins hafi óskað eftir fé­laga­skiptum til FH. Hér er innan­hús­að­staða á heims­mæli­kvarða og þjálfun eins og hún gerist best. Það sem helst vantar er að geta búið af­reks­fólki okkar yfir betra fjár­hags­um­hverfi þannig það geti náð sínu besta fram og staðið jafn­fætis af­reks­fólki á hinum Norður­löndunum. Til þess vantar nokkuð í land þótt skref hafi verið tekin í rétta átt.

Við bindum miklar vonir við að nýr í­þrótta­mála­ráð­herra muni leggja aukna á­herslu á stuðning við af­reks­fólk sem mun ef vel er staðið að skila sér í frekari af­rekum á Ólympíu­leikum og öðrum stór­mótum en þar stefnum við í frjáls­í­þrótta­deild FH að eiga fleiri full­trúa á næstu árum. Þátt­taka at­vinnu­lífs skiptir einnig miklu máli en kórónu­veirufar­aldurinn hefur vissu­lega sett strik í reikninginn hjá mörgum rekstrar­aðilum. Við hvetjum þó öll fyrir­tæki sem hafa á­huga og ráð­rúm til að tengja nafn sitt við okkar frá­bæra í­þrótta­fólk hvort sem er beint eða í gegnum af­reks­sjóð deildarinnar“, segir Guð­mundur Heiðar Guð­munds­son, vara­for­maður frjáls­í­þrótta­deildar FH.