„Við erum að sjálfsögðu himinlifandi með þá leikmenn sem við vorum að bæta við leikmannahópinn í dag. Gary Martin og Emil Lyng eru þekktar stærðir hérlendis eftir að hafa spilað hér áður og við vitum hvaða gæði og eiginleika við erum að fá frá þeim," sagði Ólafur Davíð Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu, í samtali við Fréttablaðið eftir að félagið kynnti til leiks þrjá nýja leikmenn í dag. 

„Við erum svo með fínt tengslanet í Danmörku og erum að næla í Lasse Petry í gegnum það net. Við höfum góða reynslu af þeim dönsku leikmönnum sem hafa verið hjá okkur og þeir leikmenn sem hafa komið til okkar frá Danmörku hafa staðið sig vel. Þetta er tæknilega góður miðvallarleikmaður sem við sjáum fyrir okkur að muni henta vel þeim leikstíl sem við viljum spila," segir Ólafur Davíð um þriðja leikmanninn sem gekk til liðs við Val. 

„Við erum sáttir við leikmannahópinn eins og hann er þessa stundina, en það er eins og áður að góðir leikmenn eru meira en velkomnir hingað á Hlíðarenda ef að þeir hafa áhuga á að spila með okkur. Við munum skoða málin með opnum huga fram að móti og bregðast við skakkaföllum ef einhver verða. Ég býst hins vegar ekki við fleiri blaðamannafundum í þessari viku, en maður á aldrei að segja aldrei þegar kemur að svona málum," segir þjálfarinn margreyndi. 

„Kristinn Freyr [Sigurðsson] er að glíma við meiðsli í hné sem eru þess háttar að óviss er um hvenær hann kemur til baka inn á knattspyrnuvöllinn. Sigurður Egill [Lárusson] er svo að skríða saman eftir að hafa farið í aðgerð vegna meiðsla sinna í haust. Þá hefur Haukur Páll [Sigurðsson] verið veikur undanfarna daga. Annars er leikmannahópurinn við hestaheilsu," segir hann enn fremur um stöðu mála.