Ítalir koma inn í leikinn á móti Íslandi með afar slæmt tap á bakinu. Frumraun liðsins á yfirstandandi Evrópumóti endaði með stóru tapi gegn Frökkum. Það ber hins vegar að varast að dæma ítalska liðið út frá þessum eina leik, í fyrsta lagi eru Frakkar með eitt besta landslið í heimi og í öðru lagi höfðu Ítalir til þessa verið á góðri siglingu.

Ef litið er á heimslista FIFA má sjá að Ítalía situr þar í fjórtánda sæti, þremur sætum fyrir ofan Ísland. Bæði lið eru án sigurs eftir fyrstu umferð riðlakeppninnar og þurfa á sigri að halda til þess að auka líkurnar á sæti í átta liða úrslitum.

,,Við erum meðvituð um að til þess að ná okkar markmiðum og draumum í tengslum við mótið þurfum við að ná í sigur gegn Íslandi,“ segir Valentina Giacinti, leikmaður Ítalíu og Fiorentina, í aðdraganda leiksins.

Milena Bertolini, landsliðsþjálfari Ítalíu
Fréttablaðið/GettyImages

Ítalska landsliðið komst líkt og Ísland á EM með því að vera með einn besta árangur þeirra liða sem lentu í öðru sæti í sínum riðli í undankeppninni. Ítalir töpuðu aðeins einum leik í undankeppninni, gegn Danmörku, skoruðu mikið af mörkum og fengu á sig fá.

Milena Bertolini er landsliðsþjálfari Ítalíu og hefur verið síðan árið 2017. Hún hefur náð að setja sitt handbragð á liðið sem er, þrátt fyrir afhroðið gegn Frakklandi, þekkt fyrir sterkan og þéttan varnarleik.Þó að varnarleikurinn hafi verið eitt sterkasta vopn Ítala er ekki hægt að líta fram hjá lykilleikmanni liðsins. Cristiana Girelli, framherji Juventus, er hættulegur leikmaður með gott markanef.

Cristiana Girelli er hættulegur framherji
Fréttablaðið/GettyImages

Ítalska landsliðið hefur nýtt tímann milli leikja til þess að draga lærdóm, finna jákvæða punkta og efla liðsandann. Þó svo að skellurinn hafi verið mikill gegn Frakklandi er ljóst að liðið mun ekki dvelja þar.Fyrir fram má gera ráð fyrir afar spennandi og jafnri viðureign þar sem ætla má að fá mörk verði skoruð. Það gætu verið minnstu smáatriði sem munu skipta sköpum í viðureign Íslands og Ítalíu á EM í dag.