Annað kvöld mæta Víkingur Reykja­vík og Breiða­blik til leiks í þriðju um­ferð undan­keppni Sam­bands­deildar UEFA. Liðin hafa staðið sig með miklum sóma það sem af er leik­tíð í Evrópu­keppnunum. And­stæðingarnir eru þó ekki af lakari endanum á þessu stigi keppninnar. Víkingur mætir pólska stór­liðinu Lech Poznan á meðan Breiða­blik mætir Istan­bul Basak­sehir frá Tyrk­landi. Frétta­blaðið fékk Jóhann Má Helga­son spark­s­peking til að hita upp fyrir leikina á morgun.

„Fræði­lega séð ættu þau ekki að eiga séns, en ég held að þessi lið séu á þannig skriði núna, með það mikið sjálfs­traust, að það er mjög erfitt að mæta þeim. Ég er hrein­lega allt of bjart­sýnn miðað við hvað þetta eru sterk lið,“ segir Jóhann.

Ísak Snær sem og allt Breiðabliks liðið er á mikilli siglingu um þessar mundir.
Frettablaðið / Sigtryggur Ari

Hann leggur á­herslu á hversu erfiðir and­stæðingar Víkinga og Blika eru.

„Ég held að það átti sig ekki allir á því hversu stór lið þetta eru, hvað þau eru með of­boðs­lega mikla fjár­hags­lega yfir­burði. Ég held því miður að þetta verði of stór biti fyrir þessi tvö lið, en að sama skapi veit maður aldrei.“

Basak­sehir er enn á sínu undir­búnings­tíma­bili, þar sem deildin í Tyrk­landi er ekki farin af stað. Pólska efsta deildin er hins vegar ný­farin að rúlla.

„Það er spurning hvernig Tyrkirnir koma til okkar. Liðið þeirra er ekkert til­búið. Þeir eiga örugg­lega eftir að taka inn þrjá til fimm leik­menn áður en glugginn lokar. Svo ég held að Blikar eigi meiri séns en Víkingur, af því Istan­bul-liðið er ekki alveg til­búið. Þeir eru náttúr­lega á undir­búnings­tíma­bili en við á miðju tíma­bili. Okkar mögu­leikar liggja svo­lítið þar. Ef bestu leik­menn Blika, Ísak (Snær Þor­valds­son) og Jason (Daði Svan­þórs­son), eru í stuði og vörnin heldur, þá eiga þeir séns. En Víkingar með Lech Poznan, ég held að það verði alveg rosa­lega erfitt. Þetta verða spennandi ein­vígi en auð­vitað smá Davíð á móti Golíat,“ segir Jóhann, en tekur fram að hann hafi trú á því að bæði ís­lensku liðin geti gefið and­stæðingum sínum verðuga mót­spyrnu.

Nokkrar gamlar stjörnur eru á mála hjá Basak­sehir. Sú lang­stærsta er án efa Mesut Özil, sem er hvað þekktastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal og Real Madrid. Þessi fyrrum þýski lands­liðs­maður er kominn stutt á veg með undir­búning sinn fyrir næsta tíma­bil, auk þess að vera að glíma við smá­vægi­leg meiðsli. Hann verður því ekki með annað kvöld. Fleiri þekktir leik­menn, eins og Nacer Chadli, sem áður var á mála hjá Totten­ham og Lucas Bigli­a, fyrrum leik­maður AC Milan og Lazio, eru einnig á mála hjá Basak­sehir.

Lucas Biglia er ein af stjörnunum í liði Istanbul Basaksehir.
Fréttablaðið/GettyImages

Jóhann hefur heillast mikið af fram­göngu Víkings og Breiða­bliks í Evrópu­keppnunum í ár.

„Ég elska það hvernig þau halda bæði al­gjör­lega í gildi sín. Þau spila rokk og ról-fót­bolta hérna á Ís­landi og þau þora að gera það líka í Evrópu, eins og Víkingar á móti Mal­mö.“

Víkingur tapaði naum­lega gegn sænska stór­liðinu.

„Það að þora að fara á móti svona stóru liði sýnir svo mikið hug­rekki, líka að geta fram­kvæmt þá leik­á­ætlun á þessi lið, án þess að vera tekin í bakaríið, það heillar mig mikið. Þessi fót­bolti, sem Arnar annars vegar og Óskar Hrafn hins vegar eru að spila, að ís­lensk lið geti fram­kvæmt þetta á þessu stigi, það er of­boðs­lega að­dáunar­vert og í raun svo­lítið merki­legt. Miðað við hvað við erum fjár­hags­lega veik­burða miðað við þessi lið, að við getum spilað þennan kampa­víns­fót­bolta á móti þessum sterku liðum, mér finnst það frá­bært. Þau eru búin að vera ó­trú­lega góð fyrir­mynd fyrir ís­lensk lið í Evrópu. Maður vonar að fleiri lið fylgi í kjöl­farið, þori að halda í boltann og sækja á mörgum leik­mönnum þegar tæki­færi gefast.“

Víkingar mæta pólska liðinu Lech Poznan.
©Torg ehf / Ernir Eyjólfsson

Þó svo að Jóhann haldi að Lech Poznan og Basak­sehir verði of stórir bitar fyrir ís­lensku liðin nú hefur hann trú á að ís­lenskt lið komist í riðla­keppni Sam­bands­deildarinnar á næstu árum.

„Ég vonast til þess, ef við höldum á­fram að taka þessi fram­fara­skref, að við náum þessu á næstu þremur til fjórum árum, að fara alla leið. En við þurfum auð­vitað að vera heppin með dráttinn, lenda á réttum stað.“

Jóhann telur mikla mögu­leika felast í Sam­bands­deildinni fyrir ís­lensk fé­lög.

„Sam­bands­deildin var al­gjör snilld fyrir okkur á Ís­landi. Það sýndi sig í fyrra að það var ekki neinn brjál­æðis­legur munur á henni og Evrópu­deildinni. Að sjá Jose Mourin­ho fella tárin með Roma (sem varð meistari í fyrra), þetta er al­vöru Evrópu­keppni. Ef við horfum líka á þessar fjár­hæðir sem Víkingar og Blikar eru búin að taka úr Evrópu­keppninni í ár. Þetta er peningur sem er fá­rán­lega gott fyrir ís­lenska fót­bolta­hag­kerfið að fá inn.“