Aldrei unnið tvö liðanna


Af þeim þjóðum sem verða í pottinum á morgun hefur ís­lenska kvenna­lands­liðið mætt öllum þeirra og unnið leik gegn öllum nema tveimur. Austur­ríki og Rúss­land eru einu þjóðirnar á EM sem Ís­land hefur mætt áður en ekki tekist að vinna. Stelpurnar okkar gætu fengið tæki­færi til að vinna Austur­ríki í fyrsta sinn í riðla­keppninni en rúss­neska liðið er með Ís­landi í fjórða styrk­leika­flokki og þyrfti því að mæta Ís­landi í út­sláttar­keppninni.

Heilt yfir hefur Ís­land mætt þjóðunum fimm­tán á EM 137 sinnum og hefur ís­lenska liðið unnið 29 af þessum leikjum, 26 hefur lokið með jafn­tefli og 82 leikjum lokið með tapi. n

Ná­lægt þriðja styrk­leika­flokki


Fyrir­komu­lag styrk­leika­röðunarinnar kemur helst niður á Ís­landi og Sví­þjóð þegar dregið verður í riðla í dag. Ís­land er í tíunda sæti á FIFA-listanum af þeim þjóðum sem verða á Evrópu­mótinu, fyrir ofan Belgíu, Sviss og Austur­ríki sem eru í þriðja styrk­leika­flokki en Stelpurnar okkar verða í fjórða styrk­leika­flokki í dag vegna for­múlu sem UEFA notar.

Um er að ræða fjóra styrk­leika­flokka sem ráðast á styrk­leika­stigum. Við út­reikning þeirra er tekinn inn í myndina árangur liðanna í loka­keppni EM 2017, árangur liðanna í undan­keppni og loka­keppni HM 2019 og undan­keppni EM 2022. Af því gildir árangurinn á EM 2017 20 prósent og árangurinn í undan­keppni EM 2022 40 prósent.

Sam­kvæmt því fær Ís­land 33.458 stig og er 235 stigum á eftir ná­granna­þjóðunum Austur­ríki og Sviss sem eru í þriðja styrk­leika­flokki.

Opnunar­leikurinn heillar


Frétta­blaðið fékk Mist Rúnars­dóttur, annan eig­anda Heima­vallarins sem heldur úti heima­síðu og hlað­varpi um kvennaknatt­spyrnu, til að setja saman drauma- og mar­traðar­riðil fyrir Ís­land.

Draumariðill: Það er ljóst að það skiptir litlu hvaða and­stæðing við fáum úr efsta styrk­leika­flokki. Það verður alltaf gríðar­leg á­skorun. Það yrði frá­bært að mæta gest­gjöfum Eng­lands, ekki síst ef opnunar­leikur á Old Traf­ford fylgdi með. Við gerðum á­gæt­lega gegn Ítalíu í vor og ég hef fulla trú á að við vinnum þær næst. Þá held ég að Belgía væri góður kostur úr þriðja styrk­leika­flokki.

Mar­traðar­riðill: Frakkarnir hafa alltaf reynst okkur erfiðir og eiga harma að hefna eftir von­brigði á síðustu stór­mótum. Það yrði erfitt að mæta þeim, gríðar­lega fljótum og líkam­lega sterkum. Í öðrum styrk­leika­flokki er Sví­þjóð heitasta liðið ef við skoðum árangur á stór­mótum undan­farið. Frænkur okkar í danska liðinu eru svo alltaf öflugar í þriðja flokki.

Miða­salan hefst í dag


Stuttu eftir að búið er að draga í riðla og ljóst er hverjir mót­herjar Ís­lands verða og hvar leikirnir fara fram næsta sumar opnar miða­salan hjá Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandinu.

Miða­salan á keppnina hefst í kvöld og geta ein­staklingar sótt um miða á hvaða leik sem er. Á morgun hefst miða­sala til stuðnings­manna þátt­tökuliðanna þar sem hægt verður að kaupa miða í sér­stök stuðnings­manna­hólf.