Það virðist lítið ganga upp hjá pólska stór­liðinu Lech Poznan þessa dagana. Þessu sögu­fræga fé­lagi, sem hefur orðið pólskur meistari átta sinnum og er ríkjandi meistari, hefur ekki tekist að finna taktinn undir stjórn nýs þjálfara og næsti and­stæðingur liðsins er Víkingur Reykja­vík en liðin mætast í síðari viður­eign sinni í þriðju um­ferð Sam­bands­deildarinnar á fimmtu­daginn.

Fyrri leiknum lauk með 1-0 sigri Víkinga fyrir tæpri viku síðan hér heima. Víkingar voru mun sterkari aðilinn en lið Lech Poznan hefur gengið erfið­lega frá því að Hollendingurinn John van den Brom tók við stjórnar­taumunum í júní síðast­liðnum.

Þrjár um­ferðir eru liðnar af tíma­bilinu í pólsku úr­vals­deildinni og Lech Poznan leitar enn að sínum fyrsta sigri. Liðið hefur þurft að þola töp gegn Stal Mielec og Wisla Plock, þá hefur eina stigið til þessa komið úr jafn­teflis­leik gegn Zag­lebie Lubin í fyrra­dag.

Í bullandi veseni

Í frétt pólska vefmiðilsins Fakt um fyrsta stig Lech Poznan í pólsku deildinni segir að það gefi ekki tilefni til bjartsýni fyrir stuðningsmenn félagsins. Spilamennska Lech Poznan hafi verið afleit lungann úr leiknum.

,,Lið Lech Poznan núna er langt frá því að líkjast liðinu sem vann pólsku deildina í maí," segir í frétt Fakt.

Þar er einnig minnst á þá staðreynd að þjálfari liðsins, John van den Brom hafi ákveðið að hvíla fjóra lykilmenn í leiknum gegn Zaglebie Lubin svo þeir yrðu ferskir fyrir leikinn gegn Víkingum á fimmtudaginn.

Fréttablaðið/GettyImages

Ákall til stuðningsmanna

Stuðningsmenn Lech Poznan voru allt annað en sáttir með spilamennsku sinna manna í leiknum mikilvæga gegn Víkingum í síðustu víku og mátti sjá þá taka sína menn á teppið eftir leik liðanna á Víkingsvelli.

Í nýjasta útspili félagsins á samfélagsmiðlum má sjá leikmenn Lech Poznan biðla til stuðningsmanna sinna um stuðning og þá hefur verið ákveðið að gefa miða á leik liðisins gegn Víkingi Reykjavík. ,,Við þurfum á ykkar stuðning að halda, meira en nokkru sinni áður. Við vonumst til þess að sjá ykkur á vellinum."