Víkingur Reykjavík tekur í kvöld á móti pólska stórliðinu Lech Poznan á Víkingsvelli í Sambandsdeild UEFA. Dvöl gestana frá Póllandi á Íslandi hefur verið viðburðarrík hingað til. Liðið hefur verið vakið af jarðskjálfta og í gær byrjaði a gjósa í Meradal. Pólski vefmiðillinn FAKT fjallar um dvöl Lech Poznan á Íslandi á vefmiðli sínum.

Þar fer miðilinn yfir þá miklu skjálftavirkni sem Íslendingar urðu varir við dagana fyrir gos. Stór skjálfti í gærmorgun hafði sín áhrif á leikmenn Lech Poznan sem gistu í Keflavík. ,,Jarðskjálfti að stærðinni 4,6 á Richer kvarðanum reið yfir og vakti leikmenn Lech Poznan."

Þá virðist pólski vefmiðillinn fylgjast vel með þróun mála hér á Íslandi og greinir frá því að ekki er búist við því að gosið muni hafa afdrifarík áhrif á flugumferð líkt og gosið í Eyjafjallajökli hafði árið 2010.

Á samfélagsmiðlum pólska knattspyrnufélagsins má sjá að leikmenn og þjálfarateymi Lech Poznan eru að nýta tíma sinn hér á landi til hins ítrasta. Til að mynda hefur Bláa lónið verið heimsótt.

Leikur Víkings Reykjavíkur og Lech Poznan í Sambandsdeild UEFA hefst klukkan 18:45 á Víkingsvelli í kvöld.