Þrír Íslendingar, Andri Þór Björnsson, Rúnar Arnórsson og Bjarki Pétursson, komust áfram á annað stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi.

Úrtökumótin fyrir Evrópumótaröðina, sterkustu mótaröð Evrópu, hófust í vikunni og voru sjö íslenskir kylfingar skráðir til leiks þessa vikuna.

Í Þýskalandi deildu Andri Þór, Bjarki og Rúnar tólfta sæti á 281 höggum eða sjö höggum undir pari vallarins eftir fjóra hringi.

Axel Bóasson, GK, var fimm höggum frá því að komast á næsta stig og Ragnar Már Garðarsson var átta höggum frá því. Þá rétt missti Aron Júlíusson af niðurskurðinum og tók því ekki þátt á lokadeginum.

Á sama tíma tók Aron Bergsson þátt í úrtökumóti í Svíþjóð þar sem Aron er búsettur en komst ekki í gegnum niðurskurðinn fyrir lokahringinn.

Þetta var fyrsta stig úrtökumótsins og þarf að komast í gegnum þrjú stig til að öðlast þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári.