Andri Þór Björnsson úr GR lék best allra íslensku kylfinganna á fyrsta degi annars stigs úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi.

Annað stigið hófst í dag á fjórum golfvöllum á Spáni og á Ísland fimm fulltrúa á öðru stigi mótsins.

Andri Þór lék ásamt Guðmundi Ágústi Kristjánssyni úr GR og Rúnari Arnórssyni úr GK í Almería og er í áttunda sæti eftir fyrsta hringinn á sex höggum undir pari. Guðmundur Ágúst er ekki langt undan á fjórum höggum undir pari í 13. sæti og Rúnar er í 25. sæti á tveimur höggum undir pari.

Andri fékk sex fugla og tólf pör í dag á meðan Guðmundur Ágúst fékk einn örn, fjóra fugla og tvo skolla. Þá fékk Rúnar fimm fugla, einn skolla og einn skramba í dag.

Haraldur Franklín Magnús náði sér ekki jafn vel á strik á Alicante og deilir 50. sæti á tveimur höggum yfir pari. Haraldur fékk fjóra skolla á fyrsta hringnum og tvo fugla.

Bjarki Pétursson kom einnig í hús á tveimur höggum yfir pari í Tarragona og deilir 55. sæti eftir að hafa fengið fimm skolla, þrjá fugla og tíu pör.