Knattspyrnudeild ÍBV hefur ákveðið að skipta um mann í brúnni hjá kvennaliði félagsins í knattspyrnu fyrir næsta keppnistímabil.

Andri Ólafsson sem verið hefur aðstoðarmaður Ian David Jeffs hjá karlaliði félagsins seinni hluta sumarsins mun taka við kvennaliðinu af Jóni Ólafi Daníelssyni sem þjálfað hefur liðið síðustu tvo sumrin.

ÍBV bjargaði sæti sínu í efstu deild með því að bera sigurorð af Fylki með tveimur mörkum gegn engu í næst síðustu umferð deildarinnar sem fram fór um síðustu helgi.

Eyjaliðið er með 18 stig í áttunda sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir en ÍBV mætir Selfossi í síðustu umferð deildarinnar sem leikin verður næstu helgi.