Margir Valsmenn glöddust við að sjá Andra Adolphsson í leikmannahóp liðsins gegn Víkingi á sunnudagskvöld. Það var þó hálfgerð falsfrétt. Andri segir að hann sé ekki alveg kominn á þann stað að vera farinn að taka fullan þátt í æfingum en hann glímir enn við eftirköstin af höfuðhöggi sem hann varð fyrir í fyrri hálfleik gegn ÍBV í Lengjubikarnum í febrúar. Þó að batinn sé hægur ætlar hann sér að ná fullri heilsu áður en hann verður pabbi í fyrsta sinn í nóvember. Settur dagur er 6. nóvember.

„Ég var í raun og veru ekki í hóp. Það vantaði menn og liðsstjóranum fannst sniðugt að setja mitt nafn á blað. Staðan á mér er samt nokkuð góð þó ég sé ekki klár að spila leik. Ég kláraði tvær æfingar í síðustu viku og skallaði boltann í fyrsta skipti þannig þetta styttist. Það var þó kannski aðeins full snemmt að henda mér í hópinn,“ segir hann og hlær.

Hann segir að batinn hafi verið hægur og þau skipti sem hann hafi verið nálægt því að fara aftur af stað hafi komið bakslag. „Mér skilst að ferlið í þessu sé þannig. Kúrfan er því miður ekki bara beint upp heldur gengur hún upp og niður. Það er erfitt að eiga við þetta og líka erfitt að átta sig á því hvar maður er staddur. Þetta er svolítið krefjandi því allt lítur vel út núna en það er ekkert í fyrsta sinn sem það gerist.

Ég vona samt að ef allt gengur vel í vikunni þá fari ég að verða klár,“ segir kantmaðurinn knái sem var valinn besti leikmaður Vals á síðasta tímabili.

Andri vinnur hjá Deloitte þar sem hann er ráðgjafi í upplýsingatæknigeiranum. Hann segir að það hafi verið erfitt að vinna fyrir framan tölvuskjá fyrst um sinn en allt sé þó á réttri leið – líkt og á æfingum. „Ég áttaði mig í raun ekki á alvarleikanum fyrr en ég mætti í vinnuna á mánudagsmorgni. Þá gat ég varla horft á tölvuskjáinn eða sjónvarp. Núna er þetta þannig að ég vinn í klukkutíma eða 90 mínútur og stend þá upp og tek mér örlitla pásu og loka augunum í fimm mínútur. Ég vinn samt alveg fullan dag og það er ekkert mál.“

Ekki harka af þér höfuðhögg, er áminning KSÍ um hversu alvarleg höfuðhögg geta verið og stutt er síðan Kveikur fjallaði um íslenska rannsókn um afleiðingar höfuðhöggs hjá íþróttakonum. Þá eru til leiðbeiningar KSÍ um heilahristing.

Þegar Andri fékk sitt högg þá gat hann svarað öllum spurningum sjúkraþjálfara og hélt leik áfram. „Mér fannst þetta ekki vera mjög alvarlegt þegar þetta gerðist. Ég gat svarað öllu og ekkert mál. Sérfræðingur um höfuðmeiðsli benti mér svo á að það væri algengt. Svo fékk ég spurninguna um hvernig mér hefði gengið í leiknum. Hvort eitthvað hefði verið ólíkt. Þá hugsaði ég um leikinn og í seinni hálfleik átti ég til dæmis skot í innkast og ég gaf fyrirgjöf sem var svo föst að hún fór nánast yfir skiltin hinum megin á vellinum. Ég veit ekkert hvort þetta tengist en mér fannst þetta skrýtið. Ég fór í bíó um kvöldið eftir leikinn og fann ekkert en daginn eftir leið mér hræðilega. Þetta er lúmskur andskoti. Það er kannski orðið yfir þetta.“

Hann segir að hann geti varla beðið eftir að fara sparka bolta að nýju og biðin sé búin að vera svolítið löng eftir að reima á sig takkaskóna. „Fyrsta bakslagið fór ég alveg niður á byrjunarreit aftur. Þurfti að fara aftur í létta göngutúra, vinna mig upp á hjól og svo að skokka. Annað bakslagið var betra ef svo má segja. Þetta eru búnir að vera ótrúlegir mánuðir og því miður hef ég ágæta reynslu af því að vinna mig upp úr meiðslum. Ég þekki þetta ferli og maður þarf að treysta því.

Mér líður þannig í skrokknum að ég get spilað næsta leik en ég verð að passa mig því ef ég geri of mikið þá gæti ég fengið bakslag. Þetta er skrýtið dæmi.“ Hann segir að Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, og allir tengdir Val hafi staðið vel við bakið á honum. „Hann hefur reynslu af þessu. Hann hefur verið með leikmann sem fékk höfuðmeiðsli og það ríkir traust okkar á milli og fullur skilningur.“ Valsmenn eiga næst leik á fimmtudag gegn ÍA á Akranesi.