Bolvíkingurinn Andri Rúnar Björnsson skrifaði í dag undir tveggja ára samning með möguleika á árs framlengingu hjá þýska félaginu Kaiserslautern.

Hann kemur til félagsins eftir átján mánuði í herbúðum Helsinborgs í Svíþjóð þar sem hann nældi í gullskóinn í sænsku 2. deildinni á fyrsta ári sínu.

Andri hefur byrjað tímabilið af krafti í Allsvenskan þar sem hann hefur skorað þrjú mörk í átta leikjum. Þá á hann að baki fimm leiki fyrir A-landslið Íslands.

Bolvíkingurinn verður þriðji íslenski leikmaðurinn sem leikur með Kaiserslautern á eftir Jón Daða Böðvarssyni og Lárusi Guðmundssyni.

Kaiserslautern er fornfrægt stórveldi sem varð þýskur meistari fyrir 21 árum síðan ári eftir að hafa komið upp úr næst efstu deild.

Með Kaiserslautern hafa leikmenn eins og Miroslav Klose, Andreas Brehme og Michael Ballack leikið með.