„Markmiðið fyrir mótið var að fara á pall og við vissum alveg að við gætum unnið. Við erum hins vegar sáttar með að fá silfurverðlaun. Sænska liðið sem vann er gríðarlega sterkt og það hefði allt þurft að ganga upp til þess að við færum með sigur af hólmi," segir Andrea Sif Pétursdóttir í samtali við Fréttablaðið en hún er fyrirliði kvennaliðs Stjörnunnar í hópfimleikum sem fór með silfurverðlaun heim af Norðurlandamótinu sem haldið var í Drammen um síðustu helgi.

„Árangurinn er sérstaklega góður að mínu mati þar sem þrjár sem eru í lykilhlutverki hjá okkur meiddust annars vegar í aðdraganda mótsins og svo í mótinu sjálfu. Þær kepptu með en tóku þátt í færri umferðum en þær áttu að gera. Þær sem komu inn stóðu sig mjög vel og það var ekki að sjá að við hefðum skipt út. Erfiðleikastigið minnkaði hins vegar með fjarveru þeirra sem meiddust og það hefur áhrif á einkunnina sem við fáum," segir Andrea Sif enn fremur þegar hún gerir upp mótið.

„Við erum sterkar í dansi og negldum dansinn algjörlega að þessu sinni. Það var mjög gaman að það tókst jafn vel og raun bar vitni. Ég er hins vegar ánægðust með þær framfarir sem við náðum á trampólíni. Sænska liðið er afar öflugt þar en við nálguðumst þær þar á þessu móti. Við byrjuðum svo ekki vel á dýnu en ég er sátt við þann karakter sem við sýndum að við rífa okkur hressilega upp í næstu greinum," segir hún aðspurð um hvað hún tæki helst með sér jákvætt úr þessu móti.

„Það er ekkert eitt sem verður til þess að við náum ekki að landa sigrinum. Við gerðum mistök í lendingum og vorum ekki nógu sterkar í handstöðum sem dæmi. Þá eru ýmis tæknileg atriði sem hefðu mátt betur fara. Fimleikar eru þannig íþrótt að þú nærð aldrei fullkominni frammistöðu. Nú förum við bara í það að fínpússa það sem aflaga fór," segir fyrirliðinn þegar hún er beðinn um að nefna það sem betur hefði mátt fara.

Andrea Sif var valin í úrvalsldið mótsins í dansi en Stjarnan fékk hæstu einkunnina fyrir dansrútínu sína á mótinu. „Ég er nú ekkert sérstaklega mikið fyrir það að vera að verðlauna einstaklinga í hópíþrótttum. Þrátt fyrir það er ég mjög stolt af þessum verðlaunum.

Á síðustu mótum hefur verið veitt verðlaun fyrir hæstu framkvæmdareinkunn í dansi og flottustu samvinnu og lyftur. Mér finnst eðlilegra að veita verðlaun fyrir það sem mótið snýst nákvæmlega um þó ég sé ánægð með þessa viðurkenningu," segir Andrea hógvær en stolt.

Andrea Sif Pétursdóttir með verðlaun sín fyrir að vera í úrvalsliði mótsins í dansi.
Mynd/fimleiksamaband Íslands