Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir er á förum frá Houston Dash í bandarísku NWSL-deildinni en félagið tilkynnti í nótt að Blikinn væri á förum frá félaginu.

Andrea lék aðeins níu mínútur með liði Houston í NWSL-deildinni á yfirstandandi tímabili og var sjö sinnum í leikmannahóp liðsins.

Miðjumaðurinn varð þriðji Íslendingurinn til að leika í bandarísku deildinni fyrr á þessu ári á eftir Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur.

Andrea gekk til liðs við lið Houston fyrr á þessu ári en hún lék með franska félaginu Le Havre síðasta vetur.

Hún þekkir vel til í Bandaríkjunum eftir að hafa leikið með háskólaliði UCF Knights.

Hún á að baki tólf leiki fyrir Íslands hönd en Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, talaði um að Andrea þyrfti að koma sér í lið þar sem hún fengi stærra hlutverk í haust.