Vegferðin á Evrópumótið 2020 á næsta ári hefst í dvergríkinu Andorra í kvöld þegar Strákarnir okkar mæta Andorra í fyrstu umferð undankeppninnar. Þetta er í sjötta viðureign Íslands og Andorra og hefur Ísland til þessa unnið alla leikina án þess að fá á sig mark. Það eru sjö ár liðin síðan liðin mættust síðast þar sem Jóhann Berg Guðmundsson og Rúnar Már Sigurjónsson sáu um mörkin. 

Leikurinn fer fram á Estadi Nacional-vellinum, þjóðarleikvangi Andorra sem tekur rétt rúmlega þrjú þúsund manns og hefur reynst Andorra vel á undanförnum árum. Undirlag vallarins er gervigras sem er eitthvað sem fæstir leikmenn íslenska landsliðsins hafa notast við undanfarin ár og gæti reynst Andorra hliðhollt.

Á heimavelli hefur Andorra ekki tapað mörgum leikjum síðasta ár þar sem þeim hefur tekist að hægja á leikjum og pirra andstæðingana. Í síðustu sex keppnisleikjum á heimavelli hefur aðeins Portúgal unnið Andorra.

„Ég efast ekki um það að leikmennirnir leysi þetta ekki fagmannlega. Við upplýsum leikmennina út í hvað þeir eru að fara því Andorramenn vilja komast inn í hausinn á andstæðingum sínum og ég er viss um að þeir nálgast leikinn af mikilli fagmennsku,“ sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari landsliðsins þegar Fréttablaðið ræddi við hann í vikunni.

Aðspurður sagðist Freyr ekki hafa áhyggjur af meiðslahættunni sem fylgdi gervigrasinu í Andorra.

„Við erum meðvitaðir um þær hættur sem fylgja undirlaginu og við erum búnir að undirbúa það með sjúkrateyminu. Það er langt síðan flestir leikmennirnir spiluðu á gervigrasi en ég hef ekki áhyggjur af því. Það er bara undir okkur komið að fara þangað og vinna.“

Freyr segir Andorra vera erfiðara heim að sækja en fólk búist við.

„Það er auðvelt að vanmeta Andorra en það fer Íslandi ekki vel að tala illa um andstæðingana. Þetta verður erfiður leikur sem við þurfum að nálgast af fagmennsku. Þeir eru annað lið á heimavelli. Það er ekki rétt að halda að við séum að fara að valta yfir þá þó að gerum kröfu um að vinna leikinn.“