Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri karlaliðs ítalska knattspyrnufélagsins Napoli er síður en svo sáttur við stöðu mála á búningsklefanum á heimavelli liðsins, Stadio San Paolo, en liðið hefur þurft að leika fyrstu leiki sína í ítölsku efstu deildinni á útivelli þar sem endurbótum á klefanum var ekki lokið áður en nýhafinn leiktíð fór af stað.

Ancelotti hefur áhyggjur af því klefinn verði ekki klár fyrir deildarleik liðsins gegn Sampdoria í þriðju umferð deildarinnar sem fram fer á laugardaginn kemur. Þá er fyrsti leikur í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu sem er gegn Liverpool og verður spilaður á Stadio San Paolo handan við helgina.

„Eftir að hafa séð ástandið á klefanum þá er ég eiginlega orðlaus. Ég samþykkti kröfu félagsins um að spila fyrstu tvo deildarleikina á útivelli gegn því loforði að klefinn yrði klár í tæka tíð fyrir leikinn við Sampdoria. Það tekur tvo mánuði að byggja heilt hús, ég skil ekki hvers vegna það tekur lengri tíma að gera endurbætur á jafn stóru rými og búningsklefi okkar er," segir Ancelotti í samtali við heimasíðu Napoli.

Ancelotti segir enn fremur að það sýni fram á sinnuleysi borgaryfirvalda í garð liðsins að ekki hafi verið lagður meiri kraftur í að gera klefann þannig í stakk búinn að liðið gæti spilað fyrsta heimaleikinn á tilsettum tíma. Arkitektinn Floriana Smiragli sem hefur yfirumsjón með verkinu er ekki sáttur við pilluna sem Ancelotti sendir honum og samstarfsmönnum hans.

„Okkur er mjög brugðið að heyra hvernig Ancelotti ræðst gegn störfum okkar með ósanngjörnum hætti. Við fórum í ferð um svæðið með Edoardo De Laurentiis, varaforseta félagsins, í gær og hann hrósaði störfum okkar í hástert. Því kom þessi harða gagnrýni frá Ancelotti okkur verulega á óvart .Verkið mun vera klárt á föstudaginn eins og um var samið," segir Smiragli.

Napoli hefur farið ágætlega af stað í deildinni á tímabilinu en liðið hafði betur gegn Fiorentina í fyrstu umferðinni og laut svo í lægra haldi fyrir Juventus í hörkuleik í annarri umferðinni. Napoli birti neðangreint myndskeið af búningsklefa sínum á twitter-síðu sinni í dag.