Þegar allir leikmannahóparnir eru tilbúnir fyrir Evrópumót kvenna er ljóst að Amanda Jacobsen Andradóttir, leikmaður íslenska liðsins, er yngsti leikmaður mótsins.

Amanda er ein af ellefu leikmönnum sem eru fæddar árið 2003 sem eru á leiðinni á stórmótið en hún er fædd 18. desember og er því yngst á mótinu.

Þetta er fyrsta stórmót Amöndu sem var valin í íslenska landsliðið í fyrsta sinn síðasta haust. Hún hefur leikið sex leiki fyrir Íslands hönd og byrjað tvo leiki.

Hún gat valið á milli íslenska og norska landsliðsins en valdi að leika fyrir Ísland og fetaði með því í fótspor föður síns, Andra Sigþórssonar, sem lék á sínum tíma sjö landsleiki.

Síðustu tvö mót hafa Íslendingar átt þriðju yngstu leikmenn mótsins, Öglu Maríu Albertsdóttur (2017) og Glódísi Perlu Viggósdóttur (2013).