Fernando Alonso verður á næstu dögum kynntur sem nýr liðsmaður Formúlu 1-liðsins Renault en hann mun aka fyrir franska bílaframleiðandann á næsta keppnistímabili. Spænski ökuþórinn sem verður 39 ára gamall er ekki ókunnur í herbúðum Renault en hann varð tvisvar sinnum Formúlu 1-meistari þegar hann keyrði fyrir liðið á sínum tíma.

Það er BBC sem greinir frá þessu en talsmaður Renault vildi ekkert tjá sig um þessa frétt fjölmiðilsins. Hann hætti að keyra í Formúlu 1 árið 2018 og hefur síðan þá unnið sólarhringskappaksturinn í Le Mans tvívegis, keppt í Indianapolis 500 kappakstrinum, Monaco-mótaröðinni og Dakar-rallýinu.

Alonso verður liðsfélagi Esteban Ocon hjá Renault en Spánverjinn er að leysa Daniel Ricciardo af hólmi sem mun færa sig um set til McLaren eftir að yfisrtandandi keppnistímabili lýkur. Hjá Renault mun Alonso keyra á sams konar bíl og framleiðandinn hefur yfir að ráð eins og sakir standa.

Ekki er talið að þessi sjötti sigursælasti keppandi í Formúlu 1-kappökstrum í sögunni muni blanda sér í baráttunni við toppinn þegar hann snýr til baka. Alonso hefur auk Renault keppt fyrir McLaren og Ferrari á ferli sínum. Ef Alonso verður enn á meðal keppenda í Formúlu 1 árið 2022 gæti sú reglubreyting sem tekur gildi það árið og hefur það að markmiði að minnka bilið á milli þeirra fjármuna sem framleiðendur hafa yfir að ráða til þess að gera bragarbót á bílum sínum komið Alonso til góða.