Tvöfaldi heimsmeistarinn í Formúlu 1, Fernando Alonso, ökumaður Alpine hefur beðið kollega sinn sjöfalda heimsmeistarann Sir Lewis Hamilton, ökumann Mercedes afsökunar á að hafa kallað hann hálfvita á meðan á belgíska kappakstrinum stóð um síðustu helgi.

Alonso var harðorður í garð Hamilton eftir að bílar ökumannanna lentu saman í upphafi kappakstursins í Belgíu. Sá síðarnefndi féll úr leik eftir viðskipti þeirra en Alonso gat lokið keppni. Hamilton hefur tekið sökina á árekstrinum á sig í kjölfarið.

„Því­líkur hálf­viti!" sagði Fernando Alon­so á sam­skiptar­ás Alpine liðsins eftir við­skiptin við Hamilton. „Lokar á mig af utan­verðunni. Við áttum frá­bæra byrjun en þessi maður kann bara að aka úr fyrsta sæti," bætti hann við og vísar þar til ó­fara Hamiltons á tíma­bilinu sem hefur þurft að sætta sig við ó­venju­lega stöðu í bíl Mercedes, aftar á rás­línunni en hann er vanur.

Fernando Alonso, tvöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1
GettyImages

Fyrir komandi kappakstur í Hollandi um komandi helgi hefur Alonso nú beðist afsökunar á orðavali sínu í garð Hamilton. Þau endurspegli ekki skoðun hans á ökumanninum og hafi fallið í hita leiksins.

Hann segir hins vegar að ekki er víst að málið hefði sprungið svona út ef hann hefði látið orðin falla í garð annars ökumanns, sem kæmi ekki frá Bretlandi.

„Um leið og þú segir eitthvað svona um breskan ökumann fer pressan á fullt. Ég, Sergio Perez og Carlos Sainz höfum lent í svipuðum aðstæðum. En ef maður segir eittvað um ökumann frá suðrænni slóðum þá er bara horft á það með léttleika í huga.