Almar segir frá því í Fréttablaði dagsins að hann afi verið einungis fjögurra ára gamall þegar hann hóf að æfa körfubolta hér heima með KR.

„Ég hef alltaf leikið með KR á Íslandi en ég lék svo tímabilið 2019–2020 með Stella Azurra í Róm á Ítalíu.“ Hann segir dvölina á Ítalíu hafa verið mjög skemmtilega þrátt fyrir leiðinlegan Covid-endi.

„Stella er frábært lið og þar kynntist maður því í fyrsta skipti að æfa eins og þeir bestu gera. Róm er náttúrulega stórkostleg borg og ótrúleg forréttindi að fá að prófa að búa þar. Körfuboltalega kynntist maður þessum hraða leik, þar sem pressað er allan völlinn allan tímann og mikið lagt upp úr því að vinna boltann snemma og refsa andstæðingnum hratt. Við spiluðum líka á mótum úti um alla Evrópu við mörg af bestu liðum álfunnar, svo sem Real Madrid, Barcelona, Valencia, Bayern München og Zalgris.“

Spennandi tímar fram undan

Almar flaug til Bandaríkjanna í vikunni og er að koma sér fyrir og undirbúa spennandi ár.þar sem hann mun spila með Sunrise Christian Academy menntaskólanum sem hefur yfir að skipa einu sterkasta liði landsins En hvaða markmið hefur hann sett sér fyrir veturinn og næstu ár?

„Skammtímamarkmiðið er að komast í gott hlutverk hjá Sunrise-liðinu og reyna að vinna bandaríska menntaskólatitilinn. Eftir næsta tímabil stefni ég á að spila með góðu háskólaliði og takast á við nýjar áskoranir þar sem ég mun æfa og leika gegn enn betri leikmönnum en ég mun spila á móti nú í vetur. Draumurinn er svo að spila í NBA-deildinni og hefur mig alltaf langað til þess. Lokamarkmiðið er að uppfylla þann draum.“