„Það hefur alltaf verið draumur að komast á stórmót og það er ekkert smá gaman að vera komnar til Englands að hefja þetta. Það er komin ákveðin stemning í hópinn og eftirvænting fyrir því að byrja þetta,“ segir sóknartengiliðurinn Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, aðspurð hvort að það væri komin spenna að vera komin á sitt fyrsta stórmót sem leikmaður.

Hin tvítuga Karólína verður í lykilhlutverki hjá íslenska liðinu

„Það er snerpa á æfingunum og þetta er ekkert smá flottur hópur. Ég held að við séum vel staðsettar. Við erum búin að fara aðeins í Belgana, helstu styrkleika og veikleika en fáum meiri upplýsingar frá leikgreinendunum fyrir leik,“ segir Karólína sem vildi ekki fara að gefa það út hver markmið hennar væru fyrir mót.

„Maður er ekki fara að segja mikið. Það er bara sama klisjan, taka einn leik í einu og sjá hvað það skilar okkur. Þetta eru sterk lið.“

Hafnfirðingurinn sagði að það væri stór munur að vera mætt til leiks á EM sem leikmaður eftir að hafa áður verið sem áhorfandi.

„Ég held að maður sé ekki búin að átta sig á því hvað þetta er stórt tækifæri, það kemur eflaust á leikdegi. Auðvitað er komin mikil spenna og eftirvænting. Maður er heppin að hafa fengið að spila nokkra stórleiki með félagsliðinu en fiðrildin í maganum fara á fullt á sunnudaginn.“