Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í körfubolta segist ekki gera ráð fyrir Pavel Ermolinskij í Valsliðinu á næsta tímabili en segir hins vegar alltaf vera pláss fyrir hann í sínum liðum.

Pavel lék lykilhlutverk í liðið Vals á síðasta tímabili þegar að félagið vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í karlakörfunni í 39 ár. Hann hefur einnig verið meðal bestu leikmanna Íslands undanfarna áratugi.

Finnur Freyr var gestur í Valsara-hlaðvarpsþættinum Vængjum þöndum þar sem hann var spurður út í næsta tímabil og framtíð Pavels:

,,Ef ég hef lært eitthvað af öllum mínum árum í þessu þá er það að ekki búast við neinum svörum frá Pavel Ermolinskij á þessum árstíma. Við sjáum bara til."

,,Ef hann vill spila þá er hann meira en velkominn. Við ætlum ekki að gera ráð fyrir honum en plássið hans verður alltaf þarna. Í öllum mínum liðum verður alltaf pláss fyrir hann," sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í körfubolta.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Finn Frey hér fyrir neðan: