„Hingað til hefur þetta gengið vel. Síðasti hittingur á undan þessu var í apríl og ég finn að spennustigið í hópnum er gott. Við sem erum í vetrardeildum höfum verið að æfa saman síðustu tvær vikur, í nokkurs konar foræfingabúðum og höfum náð að æfa vel, þó mann hafi verið farið að klæja að komast á æfingu með liðinu. Undirbúningurinn þar sem allir eru fullir þátttakendur hefst í raun í dag (í gær),“ segir Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins, aðspurð hvernig fyrstu dagar æfinga fyrir EM hafi gengið.
Íslenska liðið er með góða blöndu af óreyndari leikmönnum á stærsta sviðinu og leikmönnum sem þekkja þennan undirbúning vel. Dagný er ein fimm leikmanna sem eru að fara á sitt þriðja Evrópumót og þrír leikmenn hafa farið á fjögur stórmót.
„Það er ekkert skrýtið í raun og veru,“ segir Dagný létt í lundu, aðspurð hvernig sé að vera komin í hóp reynsluboltanna. „Maður lærir betur inn á þetta hlutverk með hverju ári sem líður og að mörgu leyti þegar maður eldist áttar maður sig betur á því hvað reynslan er mikilvæg.
Við þurfum að vera tilbúnar að aðstoða þessar yngri þegar þær þurfa á því að halda,“ segir Dagný, sem tekur undir að það sé ný kynslóð af leikmönnum að koma upp sem gæti gert gæfumuninn, aðspurð út í leikmenn á borð við Sveindísi Jane og Karólínu Leu.
„Sveindís og Karólína koma með ákveðin tromp í liðið og það er líka fullt af ungum leikmönnum sem geta gert útslagið sóknarlega. Það á auðvitað ekki að vera of mikil pressa á þeim, en við vonumst til þess að þær eigi gott mót og láti ljós sitt skína.“
Ólíkt síðasta Evrópumóti hafa ekki orðið mikil skakkaföll á íslenska liðinu í aðdraganda mótsins.„Mótin mín hingað til hafa verið mismunandi. Árið 2013 komumst við í átta liða úrslit þegar fólk átti kannski ekkert endilega von á því. Árið 2017 var talsvert af skakkaföllum fyrir mót, við misstum marga lykilleikmenn og við vorum ennþá að púsla okkur saman rétt fyrir mót. Þegar ég lít yfir hópinn í dag finnst mér hann ofboðslega sterkur og vonandi haldast allir heilir fram að móti,“ segir miðjumaðurinn og tekur undir að íslenska liðið virðist kunna betur við að stjórna leikjum yfir lengri tíma og með fleiri vopn sóknarlega heldur en á síðasta EM.
„Alveg sammála því að við getum betur stjórnað leikjum í dag. Fyrir síðasta mót var óvissa með þátttöku Hörpu sem var búin að vera fyrsti kosturinn í framlínunni til viðbótar við nýtt leikkerfi, en núna erum við búnar að spila í sama liði í að verða eitt og hálft ár og sóknarleikurinn er beittari. Við erum sterkari í föstum leikatriðum og erum að fá fleiri mörk úr opnum leik. Við vitum að við þurfum að skora mörk til að vinna leiki og við gerum vonandi betur í því en á síðasta móti.“
Dagný skrifaði á dögunum undir nýjan samning við West Ham en hún hefur verið á mála hjá enska félaginu frá ársbyrjun 2020. Samningur Dagnýjar rann út og bárust henni nokkur tilboð, en tilboð enska félagsins hentaði Dagnýju og fjölskyldu hennar best.
„Það voru önnur tilboð á borðinu sem ég skoðaði eitthvað, en þegar upp var staðið hentaði mér og fjölskyldu minni best að vera áfram í London í herbúðum West Ham. Það er allt til staðar hjá West Ham til þess að ég geti haldið áfram að bæta minn leik, frábærar aðstæður og fjölskyldunni líður vel,“ segir Dagný sem vill ekki gefa upp hvaðan tilboðin bárust.
„Ég er fegin að vera búin að þessu enda gott að vera samningsbundin ef einhver meiðsli koma upp á Evrópumótinu. Fyrir vikið var ég alltaf ákveðin í að klára þessi mál fyrir EM.“