„Hingað til hefur þetta gengið vel. Síðasti hittingur á undan þessu var í apríl og ég finn að spennu­stigið í hópnum er gott. Við sem erum í vetrar­deildum höfum verið að æfa saman síðustu tvær vikur, í nokkurs konar for­æfinga­búðum og höfum náð að æfa vel, þó mann hafi verið farið að klæja að komast á æfingu með liðinu. Undir­búningurinn þar sem allir eru fullir þátt­tak­endur hefst í raun í dag (í gær),“ segir Dag­ný Brynjars­dóttir, miðju­maður ís­lenska kvenna­lands­liðsins, að­spurð hvernig fyrstu dagar æfinga fyrir EM hafi gengið.

Ís­lenska liðið er með góða blöndu af ó­reyndari leik­mönnum á stærsta sviðinu og leik­mönnum sem þekkja þennan undir­búning vel. Dag­ný er ein fimm leik­manna sem eru að fara á sitt þriðja Evrópu­mót og þrír leik­menn hafa farið á fjögur stór­mót.

„Það er ekkert skrýtið í raun og veru,“ segir Dag­ný létt í lundu, að­spurð hvernig sé að vera komin í hóp reynslu­boltanna. „Maður lærir betur inn á þetta hlut­verk með hverju ári sem líður og að mörgu leyti þegar maður eldist áttar maður sig betur á því hvað reynslan er mikil­væg.

Við þurfum að vera til­búnar að að­stoða þessar yngri þegar þær þurfa á því að halda,“ segir Dag­ný, sem tekur undir að það sé ný kyn­slóð af leik­mönnum að koma upp sem gæti gert gæfu­muninn, að­spurð út í leik­menn á borð við Svein­dísi Jane og Karó­línu Leu.

„Svein­dís og Karó­lína koma með á­kveðin tromp í liðið og það er líka fullt af ungum leik­mönnum sem geta gert út­slagið sóknar­lega. Það á auð­vitað ekki að vera of mikil pressa á þeim, en við vonumst til þess að þær eigi gott mót og láti ljós sitt skína.“

Ó­líkt síðasta Evrópu­móti hafa ekki orðið mikil skakka­föll á ís­lenska liðinu í að­draganda mótsins.„Mótin mín hingað til hafa verið mis­munandi. Árið 2013 komumst við í átta liða úr­slit þegar fólk átti kannski ekkert endi­lega von á því. Árið 2017 var tals­vert af skakka­föllum fyrir mót, við misstum marga lykil­leik­menn og við vorum enn­þá að púsla okkur saman rétt fyrir mót. Þegar ég lít yfir hópinn í dag finnst mér hann of­boðs­lega sterkur og vonandi haldast allir heilir fram að móti,“ segir miðju­maðurinn og tekur undir að ís­lenska liðið virðist kunna betur við að stjórna leikjum yfir lengri tíma og með fleiri vopn sóknar­lega heldur en á síðasta EM.

„Alveg sam­mála því að við getum betur stjórnað leikjum í dag. Fyrir síðasta mót var ó­vissa með þátt­töku Hörpu sem var búin að vera fyrsti kosturinn í fram­línunni til við­bótar við nýtt leik­kerfi, en núna erum við búnar að spila í sama liði í að verða eitt og hálft ár og sóknar­leikurinn er beittari. Við erum sterkari í föstum leik­at­riðum og erum að fá fleiri mörk úr opnum leik. Við vitum að við þurfum að skora mörk til að vinna leiki og við gerum vonandi betur í því en á síðasta móti.“

Dag­ný skrifaði á dögunum undir nýjan samning við West Ham en hún hefur verið á mála hjá enska fé­laginu frá árs­byrjun 2020. Samningur Dag­nýjar rann út og bárust henni nokkur til­boð, en til­boð enska fé­lagsins hentaði Dag­nýju og fjöl­skyldu hennar best.

„Það voru önnur til­boð á borðinu sem ég skoðaði eitt­hvað, en þegar upp var staðið hentaði mér og fjöl­skyldu minni best að vera á­fram í London í her­búðum West Ham. Það er allt til staðar hjá West Ham til þess að ég geti haldið á­fram að bæta minn leik, frá­bærar að­stæður og fjöl­skyldunni líður vel,“ segir Dag­ný sem vill ekki gefa upp hvaðan til­boðin bárust.

„Ég er fegin að vera búin að þessu enda gott að vera samnings­bundin ef ein­hver meiðsli koma upp á Evrópu­mótinu. Fyrir vikið var ég alltaf á­kveðin í að klára þessi mál fyrir EM.“