Guðjón Guðmundsson mætti í settið í Íþróttavikunni sem sýnd er á Hringbraut öll föstudagskvöld. Gaupi, eins og hann er ávalt kallaður, fór þar yfir sviðið og rifjaði upp sögurnar í kringum landsliðið þegar hann var aðstoðarmaður Bogdan Kowalczyk.
Þeir félagar voru saman með Víking og landsliðið í 13 ár. „Ég byrjaði að vinna með honum þegar hann kom 1978 og var í fimm ár með honum í Víkingi. Átta ár hjá landsliðinu. Júlíus Hafstein, sem þá var formaður HSÍ, réð hann til starfa og það varð reyndar allt vitlaust þegar hann var ráðinn því það vildi hann enginn.
Hann tók mig með sér í verkið og þetta var dásamlegur og skemmtilegur tími. Krefjandi en þetta er maðurinn sem umbylti handboltanum á Íslandi. Gerði magnaða hluti og við erum enn að lifa á því enn þann dag í dag. Ekki nóg með það því margir af þessum drengjum sem hann var með í landsliðinu á sínum tíma urðu síðar á meðal bestu þjálfurum í heimi,“ sagði Gaupi.
Spurði Benedikt Bóas, þáttarstjórnandi, þá hvort Alfreð Gíslason væri sem dæmi enn að leita í skóla Bogdan sem landsliðsþjálfari Þýskalands. „Guðmundur Guðmunds líka. Þetta er einhver besti háskóli sem ég hef gengið í, það er Bogdan skólinn,“ svaraði Gaupi.
Undir stjórn Bogdans fór liðið á tvenna Ólympíuleika, HM í Sviss meðal annars og svo kom B-keppnin árið 1989 þar sem liðið hampaði sigri - sem er enn rifjað upp enda eitt stærsta afrek sem íslenskt landslið hefur unnið.
„Leitin að Gullinu. Ég átti þá spólu og held ég hafi horft á hana fjórum sinnum í viku frá fjögurra ára aldri til tíu ára. Mamma var að vera rugluð á stefinu Við gerum okkar besta,“ skaut Hörður Snævar, íþróttafréttastjóri Torgs inn í.
Gaupi sagði að tíminn með landsliðinu hafi verið frábær og hafi toppað sig með sigrinum í B-keppninni í Frakklandi árið 1989. „Sú keppni kom í kjölfarið á miklum vonbrigðum frá Ólympíuleikunum í Seúl 1988 þar sem við lentum í áttunda sæti. Þá voru miklar væntingar gerðar fyrir þá leika, við unnum Sovétmenn meðal annars í aðdragandanum sem síðar urðu Ólympíumeistarar. Boginn var spenntur ansi hátt og við höfðum æft eins og vitleysingar í einhverjar sex eða átta vikur.
Bogdan varð hræddur eftir þann leik því formið á liðinu var svo rosalegt. Hann keyrði prógrammið upp í tíu daga í viðbót sem eftir á voru mistök. Við náðum ekki að spila nægilega vel á Ólympíuleikunum en áttunda sæti er ekkert slæmur árangur.
Árið eftir er B-keppnin í Frakklandi. Þarna voru bestu landslið í heimi nema þau fjögur bestu. Væntingar til okkar voru engar. Það hafði enginn áhuga á Íslenska liðinu. Engir fréttamenn og það voru fáir íþróttafréttamenn sem eltu okkur fyrir utan Bjarna Fel sem var að sjálfsögðu mættur.
En þarna gerðist eitthvað. Einhver galdur. Liðið var afslappað. Það var enginn utanaðkomandi að spjalla við okkur og trufla því það hafði enginn áhuga. Ekki fyrr en við vinnum Vestur-Þjóðverja í Strassburg. Jón Hjaltalín sló í borðið í þeim leik, sem er frægt atriði.
Við spiluðum á móti Pólverjum í París í úrslitum og þar komu 600 íslendingar á leikinn. Það voru 15 þúsund áhorfendur þarna og einn besti landsleikur sem við höfum spilað. Gummi Hrafnkelsson, Alfreð var stórkostlegur og svo Bjarki Sigurðsson.“