Það ræðst í dag hvort það verða Haukar eða ÍBV sem mæta Selfossi í úrslitaviðureign Olísdeildar karla í handbolta en liðin mætast í oddaleik í Schenker-höllinni að Ásvöllum klukkan 16.30.

Mikið hefur gengið á í þessu einvígi en leikmenn liðanna hafa farið í leikbönn vegna brota sinna, aganefnd verið á yfirsnúningi við að dæma leikmenn í bann vegna hörku í leikjunum sem fram hafa farið í rimmunni. Þá hafa yfirlýsingar gengið á víxl á milli formanna félaganna.

Nú hafa allir leikmenn afplánað leikbönn fyrir utan Kára Kristján Kristjánsson, línumann ÍBV, sem tekur út síðasta leik sinn í þriggja leikja banninu sem hann fékk í öðrum leik liðanna.

Síðasti leikur liðsins þar sem Eyjamenn knúðu fram oddaleikinn var bæði vel og heiðarlega spilaður og engir eftirmálar urðu af þeim leik. ÍBV á titil að verja á Íslandsmótinu en Haukar freista þess að geta orðið Íslandsmeistara í fyrsta skipti síðan árið 2016.