Tveimur dögum eftir vonbrigðin í tapi gegn Sviss sem fór langt með að gera út um vonir Íslands um að komast áfram í átta liða úrslitin á HM í Egyptalandi bíða fornir fjendur íslenska liðsins í dag. Ísland mætir þá Frakklandi í næstsíðasta leik riðilsins þar sem pressan er á Frökkum sem mega ekki við því að tapa stigum en íslenska liðið vill taka góð úrslit til að byggja á til framtíðar. Franska liðið hefur verið kaflaskipt í upphafi árs eins og sést á úrslitunum en hefur sýnt þess á milli að sjöunda heimsmeistaragullið er innan seilingar.

„Þeir eru margfaldir meistarar og í gegnum tíðina hafa þeir yfirleitt orðið betri þegar líða tekur á mótin þegar þeir hafa verið að vinna mótin. Ég er hins vegar sammála því að það hafi virst einhver lægð yfir liðinu fyrir mótið. Þeir voru ekki jafn rútíneraðir og skipulagðir í leikjunum í aðdraganda mótsins,“ segir Jónatan Magnússon, þjálfari KA í Olís-deild karla, aðspurður hvort að hið ógnarsterka lið Frakklands virðist vera í einhverri lægð. Frakkar byrjuðu mótið á að vinna Noreg en voru í stökustu vandræðum gegn Alsír allan leikinn sem hafðist þó með naumum sigri.

„Það eru enn heimsklassa leikmenn í öllum stöðum hjá þeim en markvarslan hefur verið til vandræða. Manni finnst eins og þeir hafi verið í þriðja gír gegn Alsír og það gæti hafa verið ákveðin vekjaraklukka fyrir franska liðið.“

Liðin mætast í 63. sinn á morgun og eru sigrarnir ekki margir hjá íslenska liðinu. Ísland vann sigur í Gullbikarnum, æfingamóti árið 2015 og á Ólympíuleikunum árið 2012.

„Ef maður er raunsær myndum við ekki vinna marga leiki gegn Frökkum í tíu tilraunum en vonandi kemur einn af þeim leikjum á morgun. Það þarf allt að smella á báðum endum vallarins til að það gangi eftir en það gæti komið á morgun þegar pressan er ekki á Íslandi. Ef hlutirnir smella getum við alveg gert eitthvað og það gæti verið nauðsynlegt. Það hefur verið umræða um að liðið hafi fallið á prófinu eftir tapið gegn Sviss og Portúgal sem eru þó með sterk lið og við söknum lykilleikmanna en einu sigrarnir komu gegn Alsír og Marokkó. Það væri gott að taka einn sigur gegn einni af sterkari þjóðunum fyrir framhaldið. Maður sér augljósar framfarir í varnarleiknum en sóknarleikurinn hefur verið erfiðari.“ –