Icardi er gefið það að sök að hafa haldið framhjá eiginkonu sinni með Argentínsku fyrirsætunni Mariu Eugeniu Suarez sem steig fram á dögunum og viðurkenndi að hafa átt í ástarsambandi við Icardi. Hún segir að Icardi hafi blekkt sig með því að segjast ekki lengur eiga í sambandi við Wöndu.

Málið vakti athygli er Wanda birti færslu á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hún sakaði Icardi um að hafa eyðilagt fjölskyldu þeirra fyrir kynlíf en saman eiga þau tvö börn.

Málefni hjónanna rata oft í fjölmiðla og úr varð algjört fjölmiðlafár er Icardi hætti að fylgja eiginkonu sinni á Instagram. Samband þeirra virtist á enda.

GettyImages

Í gær varð hins vegar algjör kúvending í málinu. Bæði Icardi og Wanda tjáðu sig um hjónabandið á samfélagsmiðlum, lýstu bæði yfir ást sinni á hvort öðru og Wanda útskýrði mál sitt. ,,Ég varð sár yfir því sem hafði átt sér stað. Ég bað hann um skilnað á hverjum einasta degi og við enduðum á því að fara til lögmanns og hófum að skrifa undir skilnaðarpappíra."

Skilaboð frá Icardi breyttu öllu

Daginn eftir fékk Wanda skilaboð frá Icardi þar sem hann lýsti yfir væntumþykju sinni til Wöndu. ,,Eftir lesturinn áttaði ég mig á því að ég gæti átt allt en ef ég væri ekki með honum þá ætti ég ekkert," sagði Wanda í færslu á samfélagsmiðlum. Hún og Icardi eru tekin aftur saman og hún er viss um að þessir erfiðu tímar eigi eftir að gera samband þeirra sterkara.

Það virðist því allt vera fallið í dúnalogn hjá Icardi og Wöndu en það er ómögulegt að spá fyrir um framtíð sambands þeirra.