Víkingar eru brattir fyrir komandi Evrópuleik gegn Levadia Tallin frá Eistlandi í Víkinni næstkomandi þriðjudag. Liðin mætast í undanúrslitum forkeppninnar um sæti í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast La Fiorita frá San Marínó og Inter Club d‘Escaldes frá Andorra. Sá leikur, sem og úrslitaleikurinn, fara fram í Víkinni.
„Við erum mjög spenntir. Það er ekki á hverjum degi sem það eru Evrópuleikir í Víkinni. Það er líka gríðarleg ábyrgð á okkur að gera þetta eins og menn út af núverandi stöðu íslenskra liða í Evrópu. Við þurfum að fá þetta sæti til baka,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, aðspurður út í komandi leik gegn Levadia. Ísland missti eitt sæti í Evrópukeppni frá og með síðustu leiktíð vegna slakrar frammistöðu íslenskra félagsliða í Evrópuleikjum undanfarin ár.
Þetta er allt annar fótbolti en við fáum að venjast hér heima. Öll smáatriði þurfa að vera 100 prósent á hreinu
Arnar hrósaði Breiðabliki sem komst í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra. Hann vonast til að íslensku liðin sem taka þátt í Evrópukeppnum í ár, Breiðablik, KR og Víkingur, geti gert það sama. „Blikarnir gerðu þetta hrikalega vel í fyrra og þeir þurfa að halda því áfram í ár, KR líka og við, gera okkar allra besta til að endurheimta þetta sæti því það er svo ótrúlega mikilvægt fyrir íslenskan fótbolta.“
Fyrrum Víkingur býður
Það var kastað upp á það hvert af liðunum fjórum fengi að halda umspilið fyrir forkeppni Meistaradeildarinnar. Víkingur vann það og heldur mótið. „Það var mikil gleði þegar við unnum þetta hlutkesti, að fá loksins Evrópuleiki í Víkinni. Við vorum þarna 2020 en þá var náttúrulega bara einn leikur, erlendis, í Slóveníu,“ segir Arnar.
Arnar býst við krefjandi Evrópuverkefni fram undan. Hann bendir á að Flora Tallin, sem leikur í sömu deild og Levadia, hafi komist í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra en þó ekki tekist að skáka Levadia heima fyrir. „Þetta er allt annar fótbolti en við fáum að venjast hér heima. Öll smáatriði þurfa að vera 100 prósent á hreinu. Og við erum að mæta liði sem er sterkt. Flora Tallin komst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra og þeir unnu ekki einu sinni deildina, heldur þetta lið. Þannig að þetta eru tvö langbestu liðin í Eistlandi. Þetta verður hörkuleikur.“

Víkingur hefði getað fengið auðveldari andstæðing en Levadia í undanúrslitum umspilsins. Arnar kveðst þó sáttur með dráttinn. „Við erum sigurstranglegust, þessi tvö lið. Og það er fínt að fá hann bara á undan. Án þess að vera í einhverju vanmati myndi maður fyrir fram halda að Víkingur og Levadia séu bestu liðin af þessum fjórum.“
Fari Víkingur alla leið í forkeppnina verða andstæðingarnir Svíþjóðarmeistarar Malmö. Þar er við stjórnvölinn Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkinga. „Leiðin fyrir okkur er bara hrikalega spennandi. Að vinna þetta litla mót og fá svo Malmö, sem er náttúrulega bara skrifað í skýin, fyrst að Milos er að þjálfa þarna. Svo er þetta bara áfram spennandi eftir það. En í fyrsta lagi þurfum við náttúrulega bara að vera með fókus á þriðjudaginn,“ sagði Arnar um þá leið sem Víkingar gætu farið í Evrópu þetta tímabilið.
Þú kemst upp með mistök í Bestu deildinni, inn á milli. En í Evrópukeppninni, mistök og þú ert úr leik
Hann fór nánar út í hugsanlega viðureign gegn Malmö. „Þetta er alveg tvíeggjað sverð í þessari Evrópukeppni. Þú vilt fá mótherja sem þú átt möguleika í og allt svoleiðis en svo er það hitt, að fá stórt lið, sérstaklega frá Skandinavíu. Þú ert kominn í forkeppni Meistaradeildarinnar, þú átt ekkert rétt á að fá einhvern léttan mótherja í því. Fyrst við erum að fá mjög sterkan mótherja er frábært að fá þetta lið.“

Spennan að magnast
Áður en Víkingar geta farið að sjá fyrir sér rómantíska endurkomu Milosar í Víkina þarf liðið að leggja Levadia að velli á þriðjudag, ásamt því að sigra úrslitaleikinn gegn La Fiorita eða Inter Club d‘Escaldes. Arnar telur að leikurinn gegn Levadia verði jafn. „Heimavöllurinn mun væntanlega hjálpa okkur, vonandi. Vonandi verður bara fjölmenni og stemning á þeim leik. En þetta er bara 50/50 leikur.“
Arnar og hans teymi hafa horft á töluverðan fjölda leikja með Levadia. Hann segir liðið með yfirburði gegn öllum liðum eistnesku deildarinnar nema grönnum sínum í Flora. „Þessi deild er ekki sterk. Við erum búnir að horfa á nokkra leiki og suma er bara tilgangslaust að horfa á, það eru svo miklir yfirburðir. En leikirnir á milli Flora Tallin og Levadia eru hörkuleikir. Levadia vann deildina en Flora var í riðlakeppni í Sambandsdeildinni. Ég held að fólk átti sig ekki alveg á hversu mikið afrek það er. Þannig að það er ekkert vanmat eða neitt þannig í gangi hjá okkur. Þú kemst upp með mistök í Bestu deildinni, inn á milli. En í Evrópukeppninni, mistök og þú ert úr leik.“ Hann bætti svo við að Víkingar væru komnir með nokkuð góða mynd af því hverjir styrkleikar og veikleikar Levadia væru.
Eftir smá bras í upphafi tímabils hafa Víkingar nú unnið síðustu þrjá leiki í Bestu deildinni. Liðið er í öðru sæti deildarinnar með 19 stig, fimm stigum á eftir toppliði Breiðabliks, sem hefur þó spilað tveimur leikjum minna. „Það er búinn að vera ágætis stígandi. Reyndar var leikurinn gegn ÍBV (í síðustu umferð) var mjög erfiður. 3-0 gaf engan veginn rétta mynd af leiknum og markmaðurinn okkar var maður leiksins. ÍBV var mjög erfiður andstæðingur. En frammistöðulega séð, í sumar, erum við búnir að vera nokkuð sterkir en við höfum átt í vandræðum með að tengja saman sigra.
Nú erum við komnir með þrjá í röð, fjóra með bikar. Menn finna alveg, það gerðist í fyrra þegar við fórum að tengja saman sigra, þá er þetta helvíti góður sjúkdómur að eiga við. Þetta er vani sem þú vilt halda áfram en þú mátt ekki taka honum sem sjálfsögðum hlut. Það er mjög mikill spenningur í klúbbnum fyrir þessum leik,“ sagði Arnar að lokum.