Víkingar eru brattir fyrir komandi Evrópu­leik gegn Leva­dia Tallin frá Eist­landi í Víkinni næst­komandi þriðju­dag. Liðin mætast í undan­úr­slitum for­keppninnar um sæti í fyrstu um­ferð undan­keppni Meistara­deildar Evrópu. Í hinum undan­úr­slita­leiknum mætast La Fio­rita frá San Marínó og Inter Club d‘Es­cald­es frá Andorra. Sá leikur, sem og úr­slita­leikurinn, fara fram í Víkinni.

„Við erum mjög spenntir. Það er ekki á hverjum degi sem það eru Evrópu­leikir í Víkinni. Það er líka gríðar­leg á­byrgð á okkur að gera þetta eins og menn út af nú­verandi stöðu ís­lenskra liða í Evrópu. Við þurfum að fá þetta sæti til baka,“ sagði Arnar Gunn­laugs­son, þjálfari Ís­lands- og bikar­meistara Víkings, að­spurður út í komandi leik gegn Leva­dia. Ís­land missti eitt sæti í Evrópu­keppni frá og með síðustu leik­tíð vegna sla­krar frammi­stöðu ís­lenskra fé­lags­liða í Evrópu­leikjum undan­farin ár.

Þetta er allt annar fótbolti en við fáum að venjast hér heima. Öll smáatriði þurfa að vera 100 prósent á hreinu

Arnar hrósaði Breiða­bliki sem komst í þriðju um­ferð for­keppni Sam­bands­deildarinnar í fyrra. Hann vonast til að ís­lensku liðin sem taka þátt í Evrópu­keppnum í ár, Breiða­blik, KR og Víkingur, geti gert það sama. „Blikarnir gerðu þetta hrika­lega vel í fyrra og þeir þurfa að halda því á­fram í ár, KR líka og við, gera okkar allra besta til að endur­heimta þetta sæti því það er svo ó­trú­lega mikil­vægt fyrir ís­lenskan fót­bolta.“

Fyrrum Víkingur býður

Það var kastað upp á það hvert af liðunum fjórum fengi að halda um­spilið fyrir for­keppni Meistara­deildarinnar. Víkingur vann það og heldur mótið. „Það var mikil gleði þegar við unnum þetta hlut­kesti, að fá loksins Evrópu­leiki í Víkinni. Við vorum þarna 2020 en þá var náttúru­lega bara einn leikur, er­lendis, í Slóveníu,“ segir Arnar.

Arnar býst við krefjandi Evrópu­verk­efni fram undan. Hann bendir á að Fl­ora Tallin, sem leikur í sömu deild og Leva­dia, hafi komist í riðla­keppni Sam­bands­deildarinnar í fyrra en þó ekki tekist að skáka Leva­dia heima fyrir. „Þetta er allt annar fót­bolti en við fáum að venjast hér heima. Öll smá­at­riði þurfa að vera 100 prósent á hreinu. Og við erum að mæta liði sem er sterkt. Fl­ora Tallin komst í riðla­keppni Sam­bands­deildarinnar í fyrra og þeir unnu ekki einu sinni deildina, heldur þetta lið. Þannig að þetta eru tvö lang­bestu liðin í Eist­landi. Þetta verður hörku­leikur.“

Víkingar eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar hér heima
Fréttablaðið/Valli

Víkingur hefði getað fengið auð­veldari and­stæðing en Leva­dia í undan­úr­slitum um­spilsins. Arnar kveðst þó sáttur með dráttinn. „Við erum sigur­strang­legust, þessi tvö lið. Og það er fínt að fá hann bara á undan. Án þess að vera í ein­hverju van­mati myndi maður fyrir fram halda að Víkingur og Leva­dia séu bestu liðin af þessum fjórum.“

Fari Víkingur alla leið í for­keppnina verða and­stæðingarnir Sví­þjóðar­meistarar Mal­mö. Þar er við stjórn­völinn Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkinga. „Leiðin fyrir okkur er bara hrika­lega spennandi. Að vinna þetta litla mót og fá svo Mal­mö, sem er náttúru­lega bara skrifað í skýin, fyrst að Milos er að þjálfa þarna. Svo er þetta bara á­fram spennandi eftir það. En í fyrsta lagi þurfum við náttúru­lega bara að vera með fókus á þriðju­daginn,“ sagði Arnar um þá leið sem Víkingar gætu farið í Evrópu þetta tíma­bilið.

Þú kemst upp með mistök í Bestu deildinni, inn á milli. En í Evrópukeppninni, mistök og þú ert úr leik

Hann fór nánar út í hugsan­lega viður­eign gegn Mal­mö. „Þetta er alveg tví­eggjað sverð í þessari Evrópu­keppni. Þú vilt fá mót­herja sem þú átt mögu­leika í og allt svo­leiðis en svo er það hitt, að fá stórt lið, sér­stak­lega frá Skandinavíu. Þú ert kominn í for­keppni Meistara­deildarinnar, þú átt ekkert rétt á að fá ein­hvern léttan mót­herja í því. Fyrst við erum að fá mjög sterkan mót­herja er frá­bært að fá þetta lið.“

Milos Milojevic er þjálfari Malmö og fyrrum þjálfari Víkings Reykjavíkur
GettyImages

Spennan að magnast

Áður en Víkingar geta farið að sjá fyrir sér rómantíska endur­komu Milosar í Víkina þarf liðið að leggja Leva­dia að velli á þriðju­dag, á­samt því að sigra úr­slita­leikinn gegn La Fio­rita eða Inter Club d‘Es­cald­es. Arnar telur að leikurinn gegn Leva­dia verði jafn. „Heima­völlurinn mun væntan­lega hjálpa okkur, vonandi. Vonandi verður bara fjöl­menni og stemning á þeim leik. En þetta er bara 50/50 leikur.“

Arnar og hans teymi hafa horft á tölu­verðan fjölda leikja með Leva­dia. Hann segir liðið með yfir­burði gegn öllum liðum eist­nesku deildarinnar nema grönnum sínum í Fl­ora. „Þessi deild er ekki sterk. Við erum búnir að horfa á nokkra leiki og suma er bara til­gangs­laust að horfa á, það eru svo miklir yfir­burðir. En leikirnir á milli Fl­ora Tallin og Leva­dia eru hörku­leikir. Leva­dia vann deildina en Fl­ora var í riðla­keppni í Sam­bands­deildinni. Ég held að fólk átti sig ekki alveg á hversu mikið af­rek það er. Þannig að það er ekkert van­mat eða neitt þannig í gangi hjá okkur. Þú kemst upp með mis­tök í Bestu deildinni, inn á milli. En í Evrópu­keppninni, mis­tök og þú ert úr leik.“ Hann bætti svo við að Víkingar væru komnir með nokkuð góða mynd af því hverjir styrk­leikar og veik­leikar Leva­dia væru.

Eftir smá bras í upp­hafi tíma­bils hafa Víkingar nú unnið síðustu þrjá leiki í Bestu deildinni. Liðið er í öðru sæti deildarinnar með 19 stig, fimm stigum á eftir topp­liði Breiða­bliks, sem hefur þó spilað tveimur leikjum minna. „Það er búinn að vera á­gætis stígandi. Reyndar var leikurinn gegn ÍBV (í síðustu um­ferð) var mjög erfiður. 3-0 gaf engan veginn rétta mynd af leiknum og mark­maðurinn okkar var maður leiksins. ÍBV var mjög erfiður and­stæðingur. En frammi­stöðu­lega séð, í sumar, erum við búnir að vera nokkuð sterkir en við höfum átt í vand­ræðum með að tengja saman sigra.

Nú erum við komnir með þrjá í röð, fjóra með bikar. Menn finna alveg, það gerðist í fyrra þegar við fórum að tengja saman sigra, þá er þetta hel­víti góður sjúk­dómur að eiga við. Þetta er vani sem þú vilt halda á­fram en þú mátt ekki taka honum sem sjálf­sögðum hlut. Það er mjög mikill spenningur í klúbbnum fyrir þessum leik,“ sagði Arnar að lokum.