Íslenska karlalandslðið í handbolta kom á hótelið í Kaíró í gærkvöldi en þar mun liðið leika í riðlakeppni heimsmeistaramótsins næstu daga.

Sjá má í myndskeiði sem mótshaldarar setja á twitter-síðu mótsins að leikmenn og forráðamenn íslenska liðsins hafi líkt og kollegar sínir hjá öðrum liðum verið prófaðir fyrir kórónaveirunni við komun á hótelið.

Undirbúningur íslenska liðsins getur svo hafist í dag eftir að niðurstöður hafa fengist úr sýnatökunni. Ísland hefur svo leik á mótinu á fimmtudaginn kemur þegar liðið mætir Portúgal í þriðja skiptið á rúmri viku.

Liðin ættu því að gjörþekkja hvort annað og lítið sem mun líklega koma á óvart hjá þeim í leiknum.

Alexander Petterson lék ekki með íslenska liðinu í seinni leiknum gegn Portúgal í undankeppni EM 2022 þar sem hann glímdi við afleiðingar höfuðhögga sem hann fékk í fyrri leiknum.

Það er vonandi að Alexander verði búinn að jafna sig á því höggi fyrir leikinn á fimmtudaginn og geti verið með.