„Það er ofboðslega ljúf tilfinning og mikill léttir að vera búinn að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu. Mér fannst við góðir í þessum leik og það vera afskaplega gaman að taka þátt í þessum leik. 

Litháar eru með hörkulið og þetta var erfiður leikur sem okkur tókst sem betur fer að vinna," sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta, glaðbeittur í samtali við Fréttablaðið eftir sigur liðsins gegn Litháen í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í janúar á næsta ári. 

„Við nýttum færin betur í þessum leik en úti og mér fannst allir leikmenn vel stemmdir í þessum leik. Það voru allir að leggja eitthvað í púkkið og það var gaman að sjá hvað menn voru gíraðir í þennan leik. Nú tekur við sumarfrí og það er geggjað að fara inn í fríið með það bakvið eyrað að það sé stórmót í byrjun næsta árs," sagði Guðjón Valur enn fremur. 

Guðjón Valur var markahæsti leikmaður liðsins, en hann skoraði 11 mörk úr 13 skotum sínum. Hann vildi hins vegar lítið gera úr eigin frammistöðu í leiknum.

„Það er alltaf gaman að geta aðstoðað liðið og ég vona að mér hafi tekist að gera það. Ég er lítið að pæla í eigin tölfræði og hugsa um það eitt að liðið sé að tikka og vinni leikina. Það tókst að þessu sinni og okkur tókst ætlunarverkið sem er frábært," sagði Guðjón Valur um eigin spilamennsku.